«

»

Molar um málfar og miðla 1715

 

Gleðilegt sumar og þökk fyrir samskiptin í vetur, ágætu Molalesendur!

 

Molaskrifari sest nú við að nýju efir nokkurt hlé. Brá sér af bæ. Ef til vill meira um það síðar.

 

Molavin skrifaði vegna ummæla í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins: ,,Ráðstefnur voru til umræðu í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (17.4.2015) þar sem umsjónarkona sagði frá fjölda fólks, sem myndi stíga á stokk og taka til máls. Síendurtekinn hugtakaruglingur sæmir ekki Ríkisútvarpinu. Menn stíga á stokk til að strengja heit, en menn stíga á svið eða á pall til að taka til máls. Þá var greint frá ráðstefnu um Spánverjavígin á Vestfjörðum árið 1615, og sagt að afhjúpaður yrði minnisvarði í tilefni ráðstefnunnar. Að mér læðist sá grunur að minnisvarðinn sé af tilefni drápanna, þar sem tugir baskneskra hvalveiðimanna – skipbrotsmanna – voru felldir.” Molaskrifari þakkar bréfið. Grunur þinn er áreiðanlega réttur, Molavin. Þetta er frekar slakur þáttur og verður sennilega ekki langlífur. Það væri yfirið nóg , og þó kannski um of að senda hann út á annarri rásinni. Ekki báðum, í hálfa þriðju klukkustund, fimm daga í viku.

 

Gaman að sjá Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing á ríkisskjánum að nýju. Stendur fyrir sínu. Sem fyrr.

 

KÞ benti á eftirfarandi úr Viðskiptablaðinu (20.04.2015). http://www.vb.is/eftirvinnu/116259/

„Samkvæmt útgefenda bókarinnar hefur hún selst í yfir 1,5 milljónum eintaka og gæti því verið hraðasta selda harðspjalda skáldsaga sögunnar.“

Var þá einhver spennubók hraðari sem ekki var seld? – Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta er ekki mjög vel skrifað, – svo vægt sé til orða tekið. Harðspjaldaskáldsaga???? Hraðasta selda??? Samkvæmt útgefenda bókarinnar, að sögn útgefenda bókarinnar.

 

Áskell skrifaði (26.04.2014): ,,Flatti flóðið George?
Ein af mörgum fréttum mbl.is í gær (26.4)var um jarðskjálftann í Nepal. Í fréttinni eru þessar línur: – „Ég hljóp og það flatti mig út. Ég reyndi að standa upp og það flatti mig á ný,“ sagði George Foulsham, klifrari í grunnbúðunum, í samtali við blaðamann AFP.“ – Líklega kippti jarðskjálftabylgjan fótunum tvívegis undan George. „Flatti“ er svo yfirgengilega vitlaust að það verður ekki gert að umtalsefni. Á Pressunni er líka snillingur. Í fyrirsögn sagði: „Bandarískt geimfar klessir bráðlega á Merkúr“. Hvað varð um sögnina að brotlenda? Er Pressan með leikskólabörn i vinnu?”
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/26/g_helt_ad_eg_vaeri_latinn

/http://www.pressan.is/m/Article.aspx?catID=6&ArtId=75492

Molaskrifari þakkar þarfar ábendingar. Hreint ótrúlegur kjánagangur.

Klifrari? Fjallgöngumaður.

 

Í snörpum ( og verðskulduðum) ádrepupistli á Sprengisandi á Bylgjunni (26.04.2015) sagði umsjónarmaður, að frekir karlar hefðu att ráðherranum á foræðið , – átti við flumbruganginn við áformin um að flytja Fiskistofu. Við tölum um að etja á foraðið, – beita einhverjum fyrir sig við hæpnar eða vafasamar aðstæður. (Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, bls. 214). Fíflinu skal á foraðið etja, er líka sagt. – siga einhverjum eða senda einhvern út í ófæru.

 

Úr Morgunblaðinu (24.04.2015). Þar er títt nefndur aðili enn einu sinni á ferð. Í frétt á bls. 9 segir: ,,Árásraraðilinn var handtekinn á göngustíg skammt frá…” Árásaraðilinn? Árásarmaðurinn var handtekinn.

 

Blóðugar slagsmálafréttir í íþróttafréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (26.04.2015) Hversvegna þarf endalaust að teygja lopann í oftast frmur innihaldsrýrum íþróttafréttum Ríkissjónvarps um helgar? Hvers eigum við að gjalda?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>