Vettvangur kemur víða við sögu. Einkum í lögreglu- og slysafréttum. Í Morgunblaðinu (10.04.2015) sagði í frétt um bílveltu á Biskupstungnabraut: Mikil hálka var á vettvangi þar sem slysið varð. Þarna hefði í senn verið einfaldara og skýrara að segja, – mikil hálka var á veginum þar sem slysið varð.
Slettan bransi er varla gott og gilt orð yfir atvinnustarfsemi eða atvinnugrein. Í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (14.04.2015) var þessu sletta tvínotuð.
Molaskrifari glaptist á dögunum til að taka þátt í einhverskonar þjónustukönnun á netinu hjá Shell/Skeljungi. Í lokin var honum þakkað fyrir endurgjöfina! Sú orðnotkun var út í hött. Þakka hefði mátt fyrir þátttökuna, fyrir upplýsingarnar , fyrir framlagið, – svo nokkur dæmi sé nefnd. Að þakka fyrir endurgjöfina er bara bull.
Það var eiginlega óhugnanlegt að fylgjast með Kastljósi Ríkissjónvarpsins á mánudagskvöld (13.04.2015) þar sem flett var ofan af sukki og spillingu ( annað varð ekki af þættinum ráðið) í tengslum við samninga hins opinbera við nafngreind fyrirtæki um gerð hugbúnaðar fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir. Hrollvekja. Þarna áttu í hlut fulltrúar flokkanna, sem nú stýra landinu. Helgi Seljan og aðrir sem að Kastljósi standa eiga hrós skilið fyrir að afhjúpa þetta., – allt úr opinberum gögnum og vandlega undirbyggt að því er best varð séð. Vinur Molaskrifara sem er nokkuð kunnugur þessum geira lét svo ummælt, að hér væru enn ekki öll kurl til grafar komin. Tíminn mun leiða í ljós hvort svo sé.
Talsmaður stúdenta ræddi rektorskjör í Háskóla Íslands í fréttum Ríkisútvarps á þriðjudagsmorgni (14.04.2015) og sagði meðal annars : ,, … veit hvað nemendum vantar.” Tapað stríð?
Frá unglingsárunum minnist Molaskrifari þess, að einu sinni í viku var þátturinn Lög unga fólksins í Ríkisútvarpinu. Maður lagði ýmislegt á sig til að missa ekki af honum. Nú eru lög gamla fólksins spiluð einu sinni í viku í Ríkisútvarpinu. Svona breytist ekkert, – nema maður sjálfur.
Verður nú hlé á Molaskrifum um sinn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar