Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (09.04.2015) var rætt við einn af þingmönnum Framsóknarflokks. ,sem líkti Framsókn við Miðflokkinn í Finnlandi ( þar sem kosið verður 19. apríl. Orðrétt sagði Framsóknarþingmaðurinn:,, Miðjuflokkurinn er með 25-26% fylgi og er að sigra þær kosningar (svo!) með miklum yfirburðum”! – Sigra kosningarnar! Það þarf greinilega ekkert að kjósa í Finnlandi, Miðjuflokkur þingmannsins íslenska er búinn að vinna yfirburðasigur löngu áður en kosningarnar fara fram. Merkilegt!
Í þessum sama þætti ræddu þeir Bogi og Óðinn í vikulegu spjalli sínu um erlend málefni um kosningarnar í Finnlandi, en ræddu ósköp lítið um finnska Framsóknarflokkinn. Flokkurinn vill ekki, að Finnar dragi sig út úr Evrópusambandinu. Vill vera áfram í ESB. Var því upphaflega andvígur ,en viðurkennir nú kosti aðildar fyrir Finna. Í fyrra greiddu þingmenn flokksins atkvæði gegn hjónböndum samkynhneigðra, þegar atkvæði voru greidd um það mál í finnska þinginu.
Við þurfum að lesa goðafræðina betur. Það er verið að skipta landinu upp í goðorð, sagði útvarpsstjóri Útvarps Sögu (09.04.2015). Á. Er það viðfangsefni goðafræðinnar? Skipting landsins í goðorð?
Of langt og rýrt snjóbrettaviðtal frá Akureyri átti ekki erindi í aðalfréttatíma Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (09.04.2015). Til hvers er sérstakur íþróttafréttatími, sem hefur verið troðið milli frétta og veðurs? Er hann ekki einmitt fyrir svona efni?
Af forsíðu mbl.is (10.04.2015): ,,Slökkvilið Akureyrar var kallað til í nótt eftir að tilraun íbúa fjölbýlishúss til að kveikja sér í pípu með ristavél misheppnaðist”. .Ristavél er (fréttabarna)heiti á eldhústækinu, sem við köllum brauðrist. Þetta var reyndar lagfært í fréttinni.
Hér er frétt af visir.is (10.03.2015) um driftandi skriðdreka. Veit einhver Molalesandi hvaða fyrirbæri það er? http://www.visir.is/driftandi-skriddreki/article/2015150419972
Í fréttinni segir: ,, Enda er þessum skriðdreka fært að drifta að vild, ekki síst ef undirlagið er ísilagt stöðuvatn, …” Orðið drift er notað um rek á skipi. – Ekki sérstakur skrifdreki, sem þetta hefur skrifað. Eða þannig.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar