«

»

Molar um málfar og miðla 1712

Molavin skrifaði (09.04.2015): ,,Það er ástæða fyrir því að góðir fréttamenn styðjast við hefðbundið, viðurkennt orðalag í fréttum. Til dæmis hefur jafnan verið sagt af slysum að líðan hins slasaða sé „eftir atvikum“ sem er mjög skýrandi. Nú hefur færzt í vöxt að óreyndir fréttamenn sletti enskri hugsun og segi að „líðan viðkomandi sé stöðug“ (e. condition is stable). Í Netmogga í dag (8.4.2015) segir í frétt:

„Lög­reglu­yf­ir­völd hafa ekki viljað gefa upp dánar­or­sök Jónas­ar en segja að ekki sé talið að and­lát hans hafi borið til með glæp­sam­leg­um hætti.“

Það er löng hefð fyrir því að segja í fréttum af málum sem þessum að andlát hafi ekki borið „að“ með „saknæmum“ hætti. Varla með „glæpsamlegum“ hætti. (Og ekki að það hafi borið „til“ eins og þarna stendur.) Það er eitthvað æsifréttalegt og ólíkt hefðbundinni fréttamennsku Morgunblaðsins að taka svo til orða, sem hér er gert. Netmoggi mætti hafa einhvern fullorðinn á vaktinni til að lesa fréttir yfir.” – Molavin er þakkað bréfið. Allt er þetta satt og rétt. Netmoggi, – og fleiri netmiðlar ættu að huga að stöðu sinni og gæðaeftirliti,- yfirlestri og leiðréttingum.

 

Rafn skrifaði (08.04.2015) og spyr: ,, Er ekki ástæða til að gera greinarmun á djörfung og bíræfni líkt og greint er á milli þess að vera frægur og alræmdur?? Þarna er þó samræmi milli fyrirsagnar og meginmáls.

Í meginmálinu er síðan nefnifallssýkin á fullu. Lík­legt er talið, að dýr­grip­um . . . séu þegar komn­ir úr landi.” Í fréttinni segir: ,, Lík­legt er talið að dýr­grip­um sem stolið var í London um helg­ina, í einu mesta og djarf­asta skart­griparáni sög­unn­ar, séu þegar komn­ir úr landi.” Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna. Þetta birtist á mbl.is ,en var þó reyndar leiðrétt síðar.

Úr frétttum Ríkisútvarps um forsetaframboð Hillary Clintons klukkan 22 00 á sunnudagskvöld (12.04.2015): ,,Metnaður hennar í þeim málum var eitt verst varðveittasta leyndarmál í Washington”.  Verst varðveitta … hefði hér dugað. http://www.ruv.is/frett/hillary-clinton-bydur-sig-fram-til-forseta

 

Á hér títtnefndu Smartlandi mbl.is (12.04.2015) er fyrirsögnin: Eyþór á von á barni. http://www.mbl.is/smartland/stars/2015/04/11/eythor_a_von_a_barni/

Gengur hann sem sé með barn? Molaskrifari hefur ekki vanist því að talað sé um að karlmaður eigi von á barni, frekar að sagt hafi verið að tiltekinn maður ætti barn í vonum. Í fréttinni kemur fram að það er unnusta Eyþórs, sem á von á barni. Það er von á fjölgun hjá þeim.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (12.04.2015) var Hillary Clinton kölluð þingkona. Hillary Clinton var öldungadeildarþingmaður fyrir New York ríki 2001 til 2009.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>