Úr Fréttablaðinu (04.04.2015) um vélsleðamann, sem ók fram af snjóhengju: ,, Hann reyndist ekki alvarlega slasaður og voru þá aðrar bjargir afturkallaðar.” Aðrar bjargir afturkallaðar? Enginn yfirlestur. Ekkert eftirlit. Var þá önnur aðstoð afþökkuð.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (06.04.2015) heyrðist enn einu sinni ruglað saman tveimur orðtökum. Þar var sagt að engu verði til sparað. Málvenja er að segja að ekkert verði til sparað og hinsvegar að engu verði til kostað. Þessu er sífellt ruglað saman.
Mbl.is vitnar í heimasíðu fjármálaráðherra (06.04.2015) þar sem hann skrifar: ,,Birgitta Jónsdóttir ætti ekki að taka skjól í þingsköpum eða starfsháttum þingsins til að skýra almenna hjásetu sína”. Heldur klúðurslegt orðalag. Hér hefði ráðherra fremur átt að segja til dæmis: …. leita sér skjóls í þingsköpum, eða skýla sér bak við þingsköp. Maður tekur ekki skjól. Ekki einu sinni skattaskjól!
Málskot, málfarspistill Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins sl. þriðjudag (07.04..2015) var með slakasta móti. Þess var minnst að Megas ætti sjötugsafmæli þann dag. Megasi er vissulega margt til lista lagt eins og réttilega var sagt í þættinum. Honum var meðal annars talið það til ágætis að hann sletti svo fallega! Sletti fallega! Molaskrifara þykja slettur ekki fegra móðurmálið og þykja þær ekki fallegar. Ekki er orð um það að finna í opinberri málstefnu Ríkisútvarpsins að slettur séu fallegar, – þær beri á hinn bóginn að forðast.
Er til dæmis fallegra að tala um að smæla en að brosa? Bros er fallegt orð. Að smæla er hrá sletta úr ensku. Sagt var að Megas hefði búið til nýjan íslenskan málshátt: Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig. Ekki fær Molaskrifari sig til að kalla þetta íslenskan málshátt. Þessa setningu er heldur ekki að finna í hinu ágæta riti Jóns G. Friðjónssonar Orð að sönnu, sem geymir íslenska málshætti og orðskviði. Uppsláttarrit,sem ætti að vera til á hverju heimili.
Molaskrifara finnst það óviðfelldið, þegar sagt í tónleikaauglýsingu í sjónvarpi : Vilhjálmur Vilhjálmsson sjötugur.
Söngvarinn vinsæli, Vilhjálmur Vilhjálmsson, hefði orðið sjötugur 11. apríl , ef honum hefði enst aldur. Hann lést af slysförum 28. mars 1978. Óviðeigandi auglýsing. Vilhjálmur hafði fallega rödd og fór ákaflega vel með. Ekki síður en hún Ellý systir hans.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í morgun (10.04.2015) sagði umsjónarmaður, að í þættinum ætti að segja okkur frá sjötíu ára afmæli Villa Vill. Það var að bæta gráu ofan á svart.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/04/2015 at 11:16 (UTC 0)
Hann gat ekkert gert til að bjarga sér Til dæmis.
Þorvaldur S skrifar:
11/04/2015 at 08:42 (UTC 0)
Til er máltækið; Að vera allar bjargir bannaðar. Þaðan er ekki langt að tala um að afturkalla aðrar bjargir.
Ekki þætti mér fallegt að heyra talað um að vera allar björgunaraðgerðir bannaðar og í litlu samræmi við máltilfinningu mína.
Sigurður skrifar:
10/04/2015 at 17:23 (UTC 0)
Hvað þýðir framsetningin: „Honum voru allar bjargir bannaðar“?
Jón skrifar:
10/04/2015 at 09:37 (UTC 0)
Aðrar bjargir afturkallaðar?
Björgunarsveitir og slökkvilið nota orðið bjargir yfir það sem á skandinavískum málum er kallað „resurser“. Stundum má notast við „mannskapur og búnaður“,en alls ekki alltaf.