Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (18.06.2015) og spyr: ,, Hvað eru „Frönskurnar“ (samanber fyrirsögn)?? og hvað eru „franskarnar“ (samanber meginmál)??” ,,Frönskurnar seldust upp”. Í fréttinni segir: „Salan var bara meiri en framleiðslan og við þurftum að taka okkur pásu til þess að útbúa meira,“ segir Friðrik Dór, tónlistarmaður og einn eiganda nýja frönskustaðarins „Reykjavík Chips.“ Staðurinn var opnaður í gær, á þjóðhátíðardaginn, og franskarnar seldust upp á aðeins fjórum klukkustundum
.http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/06/18/fronskurnar_seldust_upp/
Það er engu líkara en orðalagið fram á sumar sé að hverfa , eða eigi undir högg að sækja. Hvað eftir annað heyrist sagt inn í sumarið. Síðast heyrði skrifari þingmann nota þetta orðalag um starf þingnefndar í viðtali á Bylgjunni á fimmtudag (18.06.2015).
Svo virðist sem framburðurinn /evvsta/ á orðinu efsta sé í sókn. Þetta heyrist aftur og aftur, ekki síst í íþróttafréttum.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (20.06.2015) var sagt: Betur fór þó á en horfðist …. Þarna hefði skrifari sagt: Betur fór þó en á horfðist. Fyrr í fréttum þetta sama kvöld var sagt: Fari svo sem á horfir … Þarna hefði til dæmis mátt segja: Fari svo sem horfir ….
Stærsta tónlistarhátíð, sem haldin hefur verið hér á landi, lýkur brátt í Laugardalnum …. Þetta las fréttaþulur Stöðvar tvö viðstöðulaust og án þess að hika í fréttatímanum á sunnudagskvöld (21.06.2015).
Stærsta tónlistarhátíðin lýkur ekki. Stærstu tónlistarhátíðinni lýkur.
Skrítið að heyra þetta ekki og leiðrétta.
Í fréttum af manndrápunum í kirkjunni Emanuel African Methodist Episcopal Church í Charleston Í Suður Karólínu var ítrekað sagt að einn þeirra sem þar var skotinn hefði verið öldungadeildarþingmaður. Það hefði mátt fylgja að sá sem hér var rætt um Clementa Pinckney var öldungadeildarþingmaður í senati eða öldungadeild Suður Karólínaríkis.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar