«

»

Molar um málfar og miðla 1747

 

Molavin skrifaði (06.07.2015): ,,Morgunblaðið segir í fyrirsögn og frétt ( http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/06/georg_spegilmynd_fodur_sins/ ) 6. júlí að Georg prins, sonur Vilhjálms prins, hertoga af Cambridge, sé „spegilmynd föður síns.“ Ég sé að í enskum fjölmiðlum hefur snáðinn verið sagður vera „spitting-image“ föður síns og þá er það nú málvenja hér að tala um „lifandi eftirmynd föður síns.“ Hins vegar hefur líka verið sagt í þarlendum miðlum að ýmsum þyki Katrín hertogaynja, móðir drengsins, vera „mirror-image“ Díönu prinsessu heitinnar, tengdamóður sinnar. En þar er fremur átt við hvernig hún gegnir hlutverki sínu.”. Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hnaut reyndar einnig um þetta orðalag.

– Molavin bætti svo við í öðru bréfi sama dag:,, Heyrði í hádeginu að Netmoggi hefði líka talað um að barnið hafi komið til kirkju í „pramma.“ Það nálgast að vera jafnoki kryddsíldarveizlunnar. (,,Princess Charlotte was pushed to her christening in a vintage pram the Queen used for two of her own children…). Það mun víst hafa verið leiðrétt, en sumarbörnin hafa nóg að gera á Mogganum” – Þakka bréfið. Þær bregðast ekki þýðingarnar hjá Mogga!

Orðið pram er notað um barnavagn á ensku. Það er stytting á orðinu perambulator, komin til sögu síðla á nítjándu segir orðabókin mín. Molaskrifari var einmitt að horfa eftir því hvort þessi virðulegi barnavagn, sem var greinilega ekki glænýr, væri af gerðinni Silver Cross, sem í gamla daga svona upp úr og eftir 1950  var það  fínasta fína, – kádiljákurinn meðal barnavagna. Sýndist svo reyndar ekki vera.

 

Innan við tuttugu manns ,,á annan tug” efndu til Grikklandsmótmæla á Lækjartorgi á sunnudag (05.07.2015). Í fréttum Ríkisútvarps bæði klukkan 16 00 og klukkan 18 00 var sagt frá þessum mótmælum, ekki bara með frétt heldur og viðtali. Þessi 12-14 manna hópur fékk einnig ríflega umfjöllun í fréttum Ríkissjónvarps um kvöldið. Viðmælandi viðurkenndi  að vita  lítið um ástandið í Grikklandi.   ,, Ég veit ekkert alveg hvernig ástandið er þar ….”. Einhverra hluta vegna fóru mótmælin fram á ensku. Einn mótmælenda sagði: ,,Við komum hérna saman og vonum að ísland segi nei í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu”, haft  eftir mótmælenda á fréttavef Ríkisútvarpsins. Hafði Ísland atkvæðisrétt? Meiri þvælan.

Undarlegt fréttamat. Það þarf ekki mikið til að komast í ríkisfréttirnar.

 

Mjög gott viðtal við Salvöru Nordal í Sprengisandi Sigurjóns M. Egilssonar  á Bylgjunni (05.07.2015), Vonandi hafa þingmenn og ráðherrar hlustað, ekki síst á það sem hún sagði um valdið og aflið. Og um illa undirbúin mál sem koma inn á Alþingi. Gæti vel hugsað mér að hlusta á þetta aftur. Hef oft hugsað til þess sem Salvör sagði á blaðamannafundinum í Iðnó um rannsóknarskýrslu Alþingis. Hún sagði efnislega : Á Íslandi er landlægt virðingarleysi fyrir lögum og reglum. – Það er mikið rétt.

 

Þeir eru einbeittir í því sem þeim langar til að gera, sagði sá sem, vill að Kínverjar reisi álver við Húnaflóa, í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (05.07.2015).

 

Úr frétt á mbl.is (02.07.2015) Þennan heiður, sem tímaritið veitir árlega, þykir öllum bílsmiðum eftirsóknarverður. Hér hefði fremur átt að standa: ,,Þessi heiður, sem tímaritið veitir árlega, þykir öllum bílasmiðum eftirsóknarverður”. http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/07/02/bill_arsins_hja_auto_express/

Og enn auglýsir stórverslunin Víðir lambalærisútsölu (Bylgjan 05.07.2015) . Það virðist ganga fremur treglega að koma þessu blessaða læri út!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>