«

»

Molar um málfar og miðla 1746

K.Þ. skrifaði (05.07.2015): ,,Á heimasíðu Vísis (http://www.visir.is/forsida ) er tengill á eina fréttina ritaður þessum orðum: Hnífjafnt á mununum. Þjóðaratkvæðagreiðslan í dag og niðurstöður hennar er stærsta verkefni evrusamstarfsins til þessa.http://www.visir.is/grikkir-ganga-til-atkvaeda-i-dag/article/2015150709521

Ég sé þetta orðalag ekki í fréttinni sjálfri. Ég kannast við orðalagið mjótt á mununum, en orðalagið jafnt á mununum (eða jafnvel hnífjafnt) er nýtt fyrir mér.”  Þakka ábendinguna, K.Þ. Hvorki heyrt þetta né séð áður.

Á þriðjudag í síðustu viku (30.06.2015) birti hið svokallaða Smartland Mörtu Maríu á fréttavef Morgunblaðsins mbl.is pistil undir fyrirsögninni: Að veita karlmanni guðdómleg munnmök. http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2015/06/30/ad_veita_karlmanni_guddomleg_munnmok/

Er þetta nýr liður í fræðslu- upplýsingastefnu Morgunblaðsins? Ný ritstjórnarstefna? Er þetta birt með fulltingi og blessun ritstjóra blaðsins? ( Hér varð Molaskrifara næstum á að verða sekur um afar slæma innsláttarvillu, – skrifaði óvart risstjóra). Molaskrifari er ekki sérlega hneykslunargjarn, – en á hvaða leið er Morgunblaðið?

 

Hraðlestin styrki alla flugvallarkosti sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins í sl. viku (29.06.2015). http://www.ruv.is/frett/hradlestin-styrki-alla-flugvallakosti

Enn ein sönnun þess, að sumir, sem skrifa handa okkur fréttir hafa ekki vald á notkun viðtengingarháttar. Hér var átt við að fyrirhuguðuð hraðlest milli höfuðborgarinnar og Leifsstöðvar mundi styrkja alla flugvallarkosti.

En verði það svo, að þessi fyrirhugaða lest ( sem aldrei mun geta borið sig samkvæmt trúverðugum útreikningum) eigi að stoppa á fjórum stöðum á leiðinni suður á Miðnesheiði verður vafalaust tímasparnaður í því að fara á bílnum eða taka rútu suður eftir fyrir flesta íbúa höfuðborgarsvæðisins.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (04.07.2015) var sagt frá þremur piltum sem lögreglan hafði staðið að þjófnaði. Málið var afgreitt til aðkomu foreldra, las fréttaþulur óhikað. Foreldrar piltanna voru kallaðir til hefði verið betra orða orðalag.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan níu (04.07.2015) var sagt frá flóttafólki, sem reyndi að komast frá Calais í gegn um Ermarsundsgöngin yfir til Bretlands. Sagt var að fólkið hefði hópast saman við munna gangnanna. Undarlegt að fólk sem starfar við fréttaskrif skuli ekki hafa það á hreinu að fleirtalan af orðinu göng er ganga. Fleirtalan af orðinu göngur er gangna. Þetta hefur verið nefnt svona tíu sinnum og skýrt út hér í Molum. Þetta var rangt lesið þennan morgun en rétt  ( leiðrétt, væntanlega ) í skrifuðum texta á vefnum. Málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins skortir ekki verkefni. Níu fréttirnar í morgunútvarpi eru einhverra hluta vegna ekki aðgengilegar á vef Ríkisútvarpsins.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>