«

»

Molar um málfar og miðla 1745

Málglöggur Molalesandi spurði hvort skrifari hefði misst af þessari málfarslegu dvergasmíð: http://vb.is/frettir/118629/

Fyrirsögnin í Viðskiptablaðinu (03.07.2015) er svona: Skortur á efnislegum gæðum dregst saman. !!! Satt er það að þessi fyrirsögn er aldeilis óvenjuleg dvergasmíð! Það gildir raunar um alla fréttina. Enginn les yfir, –  ekki á þessum bæ, frekar en öðrum. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Rafn skrifaði (29.06.2015): ,,Sæll Eiður

Hvað skyldi „fiskiolía“ vera? Ég þykist geta ráðið í, að fiskolía sé hrá barnaþýðing á því sem enskumælandi kalla „fish oil“, en við íslendingar lýsi. Hina vegar er mér alls óljóst hvað fiskiolía (= veiðiolía) getur verið, en væntan lega er það eitthvað feitmeti, sem nýtt er til fiskjar (= fiskveiða).

Jafn torræð eru ýmis önnur ámóta orð, eins og „fiskikóngurinn“ [væntanlega =aflakóngur], „fiskisúpa“ og viðlíka orðmyndir.”

Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. Orðið fiskiolía er notað í þessari frétt af mbl.is (29.06.2015): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/28/kaflarnir_ordnir_feitir_af_oliu/

 

Á fimmtudagskvöld (02.07.2015) var þátturinn Sumardagar sendur út frá Akranesi,. Einn af svokölluðum ,,Hraðfréttamönnum” Ríkissjónvarps ræddi þar við bæjarstjórann á Akranes, Regínu Ásvaldsdóttur,sem hann aftur og aftur kallaði bæjarstýru. Á heimasíðu Akranesbæjar er starfsheiti Regínu bæjarstjóri. Það var réttilega notað í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1800 daginn eftir.

 

Í íþróttafréttum (Ríkisútvarps eða sjónvarps) 30.06. var talað um liðið sem sigraði leikinn með fimm mörkum gegn einu. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins þarf að herða róðurinn. Það sigrar enginn, hvorki leik né keppni. Og svo var talað um nokkur lið í þéttum pakka. Þeir eru margir pakkarnir hjá íþróttafréttamönnum!

 

Á laugardag (04.07.2015) var á dagskrá Rásar eitt rétt strax eftir hádegið sjötti þátturinn, já, sjötti klukkutíma þátturinn af tíu um popparann Michael Jackson, sem sumum þótti merkilegur. Molaskrifara fannst hann þó aðallega vera fyrirbæri. Þetta er ansi vel í lagt. En er þetta ekki dæmigert efni fyrir Rás 2 ?  Molaskrifari hallast að því.

 

Bráðskemmtilegur þáttur Ómars frá 1995, Þegar allt gekk af Kröflunum endursýndur í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (05.07.2015) Saga Kröfluelda og helstu atburðir áranna rifjaðir upp. Gaman að sjá Vimma, Vilmund Gylfason, í essinu sínu. Ýmislegt rifjaðist upp. Hafði ekki séð þetta áður, enda við störf erlendis 1995, þegar þátturinn var settur saman. Góð skemmtun og fróðleikur.

 

Molaskrifari er nýbúinn að heimsækja Færeyjar í fáeina daga.  Eftir þá heimsókn er honum enn betur ljóst en áður hve Ríkissjónvarpið gerði þessum frændum okkar rangt til með því að kaupa og kosta hina dæmalausu Andraflandursþætti um Færeyjar. Þeir Færeyingar sem Molaskrifari hitti og höfðu séð þættina voru ekki hrifnir. Vægt til orða tekið. – Hvað skyldi þetta annars hafa kostað Ríkisútvarpið?

Nú þarf Ríkissjónvarpið að gera bragarbót. Best væri, ef Egill Helgason og hans ágæta dagskrárgerðarfólk færi til Færeyja, gerði nokkra þætti, sem gerðu mannlífi og menningu í eyjunum átján verðug skil. Það hlýtur að vera til svolítið fé til alvöru dagskrárgerðar. Egill og hans fólk mundu gera þetta vel. Mætti til mótvægis í peningamálum sleppa nokkrum Hraðfréttaþáttum á næsta ári. Það væri bættur skaðinn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>