Hann vill ekki taka afstöðu um hvort …, sagði nýiliði á fréttastofu Ríkisútvarpsins í tíufréttum á föstudagskvöld (26.06.2015). Hann vill ekki taka afstöðu til þess hvort …. Hvaða málfarskröfur eru gerðar til nýliða? Hvað fá þeir mikla þjálfun áður en þeir eru settir fyrir framan opinn hljóðnema?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag (27.07.2015) sagði fréttamaður ( fréttin var um Grikkland) að engin hætta væri á að bankar lokuðu. Skyldi málfarsráðnautur hafa rætt notkun sagnarinnar að loka við fréttamenn? Hér hefði verið eðlilegra að segja að engin hætta væri talin á að bönkum yrði lokað.
Alltaf er gott þegar misfellur eða ambögur eru leiðréttar. Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan sjö (28.06.2015) var okkur sagt að listamenn mundu stíga á stokk, þegar efnt yrði til hátíðahalda vegna þess að 35 væru liðin frá því að Vigdís Finnbogabóttir var kjörin forseti Íslands. Í næsta fréttatíma var búið að leiðrétta þetta og þá var talað að listamenn mundu stíga á svið. Stundum gengur þótt hægt fari! Menn stíga á stokk til að strengja heit, ekki til að syngja eða flytja tónlist.
Í útvarpsfréttum klukkan 2200 (28.06.2014) var okkur sagt að hátíðahöld til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur ( þar sem ÓRG núverandi forseti var áberandi vegna fjarveru sinnar) hefðu verið á Austurvelli. Í sjálfu Ríkissjónvarpinu sást ágæta vel að hátíðin var við Arnarhól! Ekki á Austurvelli. Það var svo endurtekið í fréttum á miðnætti að samkoman á Arnarhóli hefði verið á Austurvelli!
Auglýsingastofum hefur tekist að troða ensku slettunni TAX FREE inn í auglýsingar ótaldra fyrirtækja. Þetta er í mikilli sókn og heyrist æ oftar. Engin leið virðist að standa gegn þessu. Þarna hefur verið unnið óþurftarverk. Ágæt íslensk orð eru til sem nota mætti: Afsláttur og verðlækkun eru tvö dæmi. Það er eins og verið sé koma því inn hjá fólki að það sé að versla í fríhöfn! Rangt . Önnur enskusletta sem er í sókn er outlet, verslun þar sem flest eða allt er á niðursettu, hagkvæmu verði. Meira að segja Hagkaup er farið að auglýsa outlet! Við þurfum að losna við þessar slettur.
Enn er það svo, að á Rás eitt er mikið af afar vönduðu og vel unnu efni. Jafnvel þótt íþróttadeildin hafi hrifsað til sín of mikið dagskrárvald í stofnuninni og virðist þar einskonar ríki í ríkinu.
Einn er þó sá ljóður á ráði Rásar eitt,sem Molaskrifara gengur illa að sætta sig við. Það eru tilgerðarlegar og stundum illa lesnar auglýsingar. Hér ekki verið að tala um auglýsingar sem starfsmenn Ríkisútvarpsins flytja okkur. Það er ekkert að þeim. Hér er verið að tala um aðsendar auglýsingar, sem sumar eru hálfgert rusl,- stundum áfengisauglýsingar, sem þar að auki eru ótvírætt lögbrot. (Og enginn gerir neitt!) Stundum er þetta hálfgert garg. Auglýsingadeild virðist gagnrýnilaust taka við öllu sem þangað er borið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar