«

»

Molar um málfar og miðla 1753

AÐ KOMA VIÐ SÖGU

Það skal fúslega viðurkennt, að hér er nokkuð oft minnst á sömu hlutina, það er gert  í þeirri vissu að, – dropinn holar steininn og að aldrei er góð vísa …

Algengt er að orðtökum sé slegið saman. Í veðurfréttum Ríkissjónvarps ( 13.07.2015) sagði veðurfræðingur: Þegar hér er komið við sögu. Hefði átt að vera: Þegar hér er komið sögu, – Þegar hér er komið, eða á þeirri stundu ….  Að koma við sögu, þýðir að eiga hlut að máli, eiga aðild að einhverju. – Hann kom við sögu, þegar ákveðið var að byggja kirkjuna.

 

GAMALDAGS?

Það kann að vera gamaldags og hallærislegt í samtímanum, en Molaskrifara var á sínum tíma kennt að byrja ekki ritgerðir eða greinar í fyrstu persónu eintölu á sjálfum sér , – með  ÉG

Hann hnaut þess vegna um það, þegar fréttamaður Ríkissjónvarps, sem hafði farið í kríuvarp á Seltjarnarnesi (14.07.2015) sagði í upphafi pistils síns í fréttatímanum: Ég og Vilhjálmur Þór Guðmundsson myndatökumaður ….   Eðlilegri byrjun hefði verið , til dæmis, Við Vilhjálmur Þór Guðmundsson, –  eða, – Í kríuvarpinu, sem við  …. ÉG á að vera aukaatriði í fréttum.

 

SLETT

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (15.07.2015) var sagt frá heimsmóti íslenska hestsins sem senn fer fram í Danmörku. Hestar sem þangað fara frá Íslandi eiga ekki afturkvæmt samkvæmt ströngum reglum um smitsjúkdóma. One way ticket, sagði þá annarra tveggja umsjónarmanna Morgunútgáfunnar. Farmiði aðra leiðina. Hversvegna þarf að slá um sig með enskuslettum? Algjör óþarfi. Hvimleiður ósiður. Einu sinni var sagt við Molaskrifara, að þeir slettu mest ensku,sem minnst þekktu til þess ágæta tungumáls. Kannski er það stundum svo.

 

SIGRUÐ DAGLEIÐ

Á miðvikudagskvöld (15.07.2015) sagði nýliði okkur í íþróttafréttum   í tíufréttum Ríkissjónvarpi frá pólskum hjólreiðakappa sem sigraði elleftu dagleiðina í dag í Tour de France hjólreiðakeppninni.  Nú er  mál að linni.  Við heyrum  þessa ambögu aftur og aftur.  Málfarsráðunautur  þarf að taka  til sinna ráða. Getur enginn leiðbeint nýliða, sem enn á ekki erindi að hljóðnema og hefur enn ekki lært að það getur enginn sigrað dagleið, – ekki frekar en keppni?

 

HRÓS

Mikið eru þær góðir fréttaþulir og fréttamenn þær Halla Oddný Magnúsdóttir og Vera Illugadóttir hjá Ríkisútvarpinu, – að öðrum ólöstuðum.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>