«

»

Molar um málfar og miðla 1756

BÁTASMÍÐI Á GÁSUM

Rafn sendi eftirfarandi (20.07.2015) ,,Flest er farið að nýta sem byggingarefni. Á Gásum er sagt að verið sé að smíða bát úr miðaldaverkfærum. Ég get skilið, að miðaldaverkfæri séu nýtt við slíkar smíðar, það er að smíðað sé með þeim. Hins vegar er nokkuð langt til seilst að smíða bát úr slíkum verkfærum.” Þakka bréfið, Rafn.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/18/drykkfelldir_munkar_kveikja_i_husum/

,, Það eru þó ekki bara drykk­felld­ir munk­ar sem kveikja í á svæðinu. „Það er ým­is­legt annað í gangi hérna. Við erum að steypa kirkju­klukku úr bronsi og það er byrjað að smíða bát, sem er ein­göngu smíðaður úr miðalda­verk­fær­um. Það er því nóg um að vera.“

 

BISSNES OG BRANSI

Í upphafi Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (21.07.2015) kynnti umsjónarmaður efni þáttarins. Rætt var við mann, sem skipuleggur brúðkaup útlendinga á Íslandi, ,, … bissnes er að færast í vöxt hér á landi … fræðast um þennan ört stækkandi bransa”. Í lok þáttarins var Málskotið, sem oft er áhugavert, þar var að venju rætt við málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Ekki hefði farið illa á því að víkja stuttlega að þessum óþörfu slettum umsjónarmanns. Það var ekki gert.

 

 

GULLKORN AF STÖÐ TVÖ

Í fréttum Stöðvar tvö (19.07.2015) var okkur sagt að ferðamannafjöldi hefði stigmagnast. Átt var við að ferðamönnum hefði fjölgað. Einnig var okkur sagt að öryggi ferðamanna væri víða hætt komið. Þá kom fram í fréttatímanum að Grafningsvegur væri nánast óökufær. Átt var við að vegurinn væri nánast ófær bílum. Líklega var átt við að öryggi ferðamanna væri í ýmsu ábótavant. Í íþróttafréttum sagði fréttamaður okkur, að varla hefði nokkrum manni órað fyrir! – Verður hér látið staðar numið.

 

VATN – SJÓR

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.07.2015) var sagt frá árekstri, – olíuskip sigldi á ferju við hafnarmynnið í Gautaborg. Gat kom á síðu ferjunnar og vatn lak inn. Skyldi það ekki hafa verið sjór? Á fréttavefnum visir.is var hinsvegar réttilega sagt: ,,Stórt gat myndaðist á bakborðshlið ferjunnar og lak inn sjór”.

T.H. gerði líka athugasemd við frétt um þetta á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/19/oliuflutningaskip_sigldi_a_ferju/

„Talsmaður Stena sagði að ör­yggi fólks hefði ekki verið í hættu.“
Eitthvað er þetta nú skrítið, segir T.H.  – Rétt er það.

 

FEISBÚKK- FÉSBÓK

Þátturinn Orð af orði, sem málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins annast er fróðlegur og áheyrilegur. En ekki kann Molaskrifari að meta, þegar umsjónarmaður talar um feisbúkk síðu þáttarins. Hversvegna ekki fésbókarsíðu?

 

UNDIRSKRIFTIR

Forseta Íslands verður í dag (20.07.2015) afhentur þúsundir undirskrifta …, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (20.07.2015) . Heyrir enginn? Sér enginn?  Forseta Íslands verða í dag afhentar þúsundir undirskrifta ….

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>