«

»

Molar um málfar og miðla 1757

KISI BORÐAR

Molavin skrifaði (22.07.2015): ,,Hvað má kisi ekki borða? Þannig hljóðar fyrirsögn í prentútgáfu Morgunblaðsins (22.07.2015) á grein um mataræði katta. Maður býst nú við öllu í netútgáfunni mbl.is – en trúlega eru afleysingabörn að störfum á ritstjórn blaðsins. Samt hélt ég að börn væru frædd um það í leikskóla að fólk borði en dýr éti. Nema náttúrlega á heimilum þar sem kettirnir sitja við sama borð og heimilisfólkið á matartímum”.

Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er réttmæt athugasemd.

.

HRUMAR?

Á baksíðu Morgunblaðsins á þriðjudag (21.07.2015) var frétt um tónleika Silju Rósar Ragnarsdóttur og Auðar Finnbogadóttur á Café Rosenberg. Í fréttinni segir: Hljómsveitin Four Leaves Left mun styðja söngkonurnar og …. þær eru greinilega orðnar hrumar, blessaðar, eða hvað? Þurfa stuðning, en syngja samt. Það er virðingarvert.

 

AÐ KJÓSA UM

Þar verður kosið um nýjan forseta sambandsins , (FIFA) sagði –íþróttafréttamaður Ríkisútvarps í hádegisfréttum (20.07.2015). Betra hefði verið: Þar verður kosinn nýr forseti sambandsins.

 

AÐ FRAMKVÆMA SVEIFLU

Í golfþætti Ríkissjónvarps (21.07.2015) var talað um að framkvæma góða golfsveiflu. Flest er nú framkvæmt!

 

ÓDULBÚNAR ÁFENGISAUGLÝSINGAR

Ríkissjónvarpið er að færa sig upp á skaftið. Á undan golfþættinum,sem nefndur er hér að ofan voru bjórauglýsingar. Ekki sá Molaskrifari að gerð væri minnsta  tilraun til að leyna því að verið væri að auglýsa áfengi.

Hve lengi á Ríkissjónvarpinu að líðast að brjóta lög? Er öllum ráðamönnum sama ?

Hvað segja Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum?

 

ENN ER KLESST Á

Barnamálið er að festast í fréttaskrifum. Þ.G. sendi eftirfarandi (22.07.2015): ,,Sæll Eiður. Var að lesa í vefmogga frétt um Quirinale höllina í Róm. Hún er sögð 110 þúsund ferkílómetrar að stærð, sumsé um 7 þúsund ferkílómetrum stærri en Ísland. Ekki mikill yfirlestur þar.

Eins er frétt um, að vörubíll með krana hafi klesst á brú í Kópavogi, sumum gengur hægt að vaxa upp úr barnamálinu” Kærar þakkir Þ.G. – Ferkílómetrunum var reyndar seinna breytt í fermetra. Greinilega hefur einhver lesið yfir sem skilur muninn á fermetra og ferkílómetra.

UNDIR VIÐGERÐUM!

AF dv.is (21.07.2015):,, Vilhjálmur segir að baðherbergin sem voru óþrifin séu undir viðgerðum og hafi verið merktar „Out of order,“ en svo virðist sem einhver hafi, „öðrum en starfsfólki okkar,“ hafi tekið þá merkingu af baðherbergishurðinni.”

Þetta er hreint ótrúlega vondur texti.

Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/7/21/foru-inn-i-herbergi-hja-skolasteplum-seint-um-kvold/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt, Stefán. Á mbl.is hefur ,,bundið við höfnina“ verið leiðrétt og þar stendur nú réttilega ,,bundið við bryggju““. Mbl. is sleppir hinsvegar ,,undirsjávarrannsóknunum“. Sem von er.

  2. Stefán Haraldsson skrifar:

    Góðan daginn Eiður.
    Það er rétt hjá þér að prentuðu blöðin virðast í töluverðum mæli vera skrifuð
    af fréttabörnum.
    Í Morgunblaðinu í dag er frétt um snekkju sem liggur á ytri höfninni í Reykjavík.
    Þar stendur að hún sé því ekki bundin við höfnina.
    Einnig að um borð sé kafbátur sem gagnist vel við undirsjávarrannsóknir.

    mbk
    Stefán Haraldsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>