«

»

Molar um málfar og miðla 1758

UM NÁSTÖÐU OG FLEIRA

Sigurður Sigurðarson sendi Molum  svohljóðandi bréf:

,,Sæll,

Sendi þér þetta til að létta á mér þó tel ég mig ekkert tiltakanlega góðan í skrifum og málfari.

 

Blaðamenn virðast margir hverjir ekki búa yfir hæfileika til að segja frá sem hlýtur að skipta meginmáli. Niðurstaðan verður oftast hnoð. Punktur getur þó verið bjargvættur þess sem fellur í þá gryfju að búa til langar og flóknar málsgreinar. Hann verður þó að gera sér grein fyrir langlokunni og þá getur punkturinn verið gagnlegur.

 

Alltof algeng er að nástaðan sem svo er nefnd, það er sömu orðin eru sífellt endurtekin með örstuttu millibili. Held að þetta sé algengast meðal fréttamanna og dagskrárgerðarfólks í sjónvarpi og útvarpi. Hérna eru dæmi um afar slakar frásagnir og jafnvel vitleysur. Held að þú áttir þig á þessu.

 

Upplifði hundsun

Niðurstaða skýrslu sálfræðinga var meðal annars sú að birtingamynd eineltisins hefði verið meðal annars sú að Hjálmar átti að hafa brugðist með óviðeigandi hætti við framgöngu starfsmannsins sem trúnaðarmanns starfsmanna í launadeilunni og í kjölfarið breytt framkomu sinni og viðmóti í garð starfsmannsins á þann hátt að hann upplifði hundsun.

http://www.dv.is/frettir/2015/7/1/hjalmar-sekur-um-einelti-tharf-ad-greida-600-thusund-i-miskabaetur/

 

Málið, málið, málið málið …

Eins og mbl.is greindi frá í dag þá hóf lög­regl­an að rann­saka málið eft­ir að sál­fræðing­ur tók að skoða málið upp á eig­in spýt­ur og benti lög­regl­unni á nokk­ur áhuga­verð atriði sem höfðu ekki verið rann­sökuð nægi­lega vel á sín­um tíma. 

Sál­fræðing­ur­inn heit­ir Clas Fredric And­er­sen og eyddi hann frí­tíma sín­um í nokkra mánuði í að skoða málið. Áhugi hans á mál­inu vaknaði eft­ir að hann vann störf fyr­ir lög­regl­una í Vest­fold fyr­ir nokkr­um árum síðan. Gat hann ekki hætt að hugsa um málið og ákvað að skoða það bet­ur.

„Ég sett­ist niður í friði og ró og renndi í gegn­um öll gögn máls­ins. Þegar hann greindi lög­regl­unni frá rann­sókn sinni var ákveðið að skipa nefnd sem myndi fara yfir niður­stöður hans. Nefnd­in skilaði síðan af sér skýrslu þar sem mælst var til þess að lög­regl­an myndi aft­ur rann­saka ákveðin atriði máls­ins, og í kjöl­farið var hinn sýknaði maður hand­tek­inn á ný, 16 árum eft­ir morðið.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/09/rannsakadi_malid_upp_a_eigin_spytur/

 

Lést af höndum lögreglu

Sweat virt­ist hafa nokkra ánægju af því rekja at­b­urði fyr­ir lög­reglu úr sjúkra­rúmi sínu, en þess ber að geta að fé­lagi hans, Rich­ard W. Matt, lést af hönd­um lög­reglu á flótt­an­um.

 

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/20/vitnisburdur_um_elju_og_vanhaefi/

 

 

Hans innkoma

Hann fékk orð í eyra frá Guðmundi Benediktssyni, aðstoðarþjálfara KR, í hálfleik og var greinilegt að hann átti að koma inn á. Hans innkoma átti eftir að breyta miklu.

 

Jacop Schoop var fórnað fyrir Gary, sem var færður út á kantinn. Hinn lipri Schoop var haldið niðri af miðjumönnum FH í fyrri hálfleik og en sjálfsagt hefðu margir KR-ingar furðað sig á því að liðið væri nú að spila síðari hálfleikinn í Kaplakrika án bæði Schoop og Sören Fredriksen, sem var ekki í hóp KR í kvöld. 

 

http://www.visir.is/umfjollun,-vidtol,-einkunnir-og-myndir–fh—kr-1-3—reidur-gary-sneri-leiknum-vid/article/2015150719192

 

 

Sem … sem

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem McClean sem fæddist í Derry í Norður-Írlandi kemst í fjölmiðla fyrir stjórnmálaskoðanir sínar en hann hefur tvisvar neitað að leika í treyju með minningarblómi (e.Remembrance poppy) tileinkuðu látnum breskum hermönnum.

 

http://www.visir.is/irskur-landslidsmadur-sneri-baki-i-breska-fanann-i-thjodsongnum/article/2015150729873

 

Smáviðbót:

Var að lesa mbl.is rétt áðan, segir Sigurður,  og rakst þá á þetta:

 

„Mildi þykir að ekki fór verr þegar vöru­bíll með krana klessti á brúnna milli Kópa­vogs og Garðabæj­ar á Hafn­ar­fjarðar­vegi áðan. …“ 

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/21/kraninn_flaug_af_bilnum/

 

Hvað þýðir sögnin að klessa? Er þetta barnamál, sem fréttaskrifendur hafa ekki náð að hrista af sér eftir því sem þeir fullorðnuðust? Þegar ég var blaðamaður hefði ég fengið bágt fyrir svona og því notað orðalagið „að rekast á“ og bætt svo við „harkalega“ hafi verið tilefni til.”- Já hann klessti á brúnna!!! Ótrúlegt.-

Molaskrifari  þakkar Sigurði kærlega þetta ágæta bréf. Vonandi lesa þeir þetta ,sem  mest þurfa á að halda.

 

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>