BROTHÆTT VEÐURSPÁ
Já, Brothætt veðurspá. Þetta er fyrirsögn fréttar á dv. is (23.07.2015) Tengillinn við fréttina er skárri en fyrirsögnin: http://www.dv.is/frettir/2015/7/23/tvisynt-utlit-fyrir-verslunarmannahelgina/
Í fréttinni segir: ,,Tæplega tvær vikur eru þar til verslunarmannahelgin brestur á í allri sinni dýrð.”. Einmitt það:,,Í allri sinni dýrð!”
,,Það er búið að vera óheppilegt tíðarfar fyrir norðan og austan”. ,,Eftir næstu helgi verður ástandið mjög brothætt”. ,,Annaðhvort verður ástandið óbreytt eða afgerandi viðsnúningur á tíðarfarinu”. Ja, hérna! Hvað er brothætt ástand? Tvísýnar horfur, – eða er þetta bara bull? Tilvitnanirnar eru bæði úr fréttinni og viðtali við veðurfræðing hjá fyrirtæki sem heitir Veður ehf.
ÞOLMYNDARÁRÁTTAN
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (24.07.2015) var sagt frá því, að flugvél hefði verið tekin á leigu til að flytja sjö albanska hælisleitendur frá Íslandi til síns heima. Tvisvar sinnum, að minnsta kosti var sagt,- sérstök flugvél var leigð af ríkislögreglustjóra (undir fólkið). Leigir ríkislögreglustjóri út flugvélar? Fráleitt að nota þarna þolmynd. Germynd er alltaf betri. Enginn les yfir. – Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.07.2015) var réttilega sagt, að ríkislögreglustjóri hefði leigt flugvél til að flytja fólkið. – Þolmyndin var reyndar horfin í hádegisfréttum Ríkisútvarps þennan sama dag.
ENN UM BISSNES OG BRANSA
Sletturnar bissnes og bransi eru öðrum umsjónarmanni Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu sérstaklega hugleiknar. Tókst enn og aftur að koma þeim báðum í eyru okkar, sem hlustuðu á föstudagsmorgni (24.07.2015). Hvað segir málfarsráðunautur? Er þetta kannski að auðga og fegra móðurmálið?
ÚRVALS EFNI
Á Rás eitt er oft úrvals efni, sem sótt er í fjársjóðakistu Ríkisútvarpsins. Undir það flokkast tónlistarþættir Gylfa Þ. Gíslasonar um þrjá ólíka söngvara. Annar þáttur af þremur var endurfluttur sl. fimmtudagskvöld. Þar fjallaði Gylfi um rússneska stórsöngvarann, brokkgenga, Feodor Shjaljapin. (Sá sami Shjaljapin kom einnig við sögu í fínum þætti um heimsins frægustu bassa- og baritónsöngvara á BBC4 25.07.2015.) Gylfi var ekki aðeins vel að sér um sígilda tónlist, heldur tónskáld að auki. Gylfi gerði fleiri tónlistarþætti fyrir Ríkisútvarpið eftir að hann hætti þátttöku í stjórnmálum. Frábærir þættir þar sem saman fara vönduð efnistök og úrvalssmekkur. Upplýsingar um þáttinn í dagskrá á heimasíðu Ríkisútvarpsins eru hinsvegar af afar skornum skammti. Þess er ekki einu sinni getið að um endurflutt efni sé að ræða. Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra 1956 til 1971, lengur en nokkur annar í sögu lýðveldisins.
Það var sennilega árið 1970, í spjalli á undan sjónvarpsviðtali, að Molaskrifari, sem þá var fréttamaður, sagði við Gylfa:- Þú ert búinn að vera menntamálaráðherra meira en helming þess tíma ,sem Ísland hefur verið lýðveldi. Viðbrögð Gylfa man ég vel. – Ja, hver ansinn, sagði hann, – ég hef aldrei hugsað út í það!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
31/07/2015 at 15:50 (UTC 0)
Gaman að þessari upprifjun.
Guðjón Ingi Guðjónsson skrifar:
31/07/2015 at 11:46 (UTC 0)
Ég missti alveg af þáttum Gylfa en þarf að finna mér tíma til að gera það. Þetta er sérstaklega áhugavert fyrir mig því ég gerði líka þátt um Lauritz Melchior fyrir Rás 1! Það mun hafa verið upp úr aldamótum. Melchior-þátturinn minn var hluti af 4 þátta röð um norræna óperusöngvara og hafði ég Melchior þar sem fulltrúa Dana. Engum datt í hug að benda mér á þessa þætti Gylfa þegar ég gerði mína þætti en einhvern veginn efast ég um að samanburðurinn verði mér í hag! Nújæja.