FRAMKVÆMD MANNVIRKJA
Ástæðan er gríðarlegur kostnaður við framkvæmd mannvirkja,sem tengjast leikunum, var sagt i í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (28.07.2015) Fréttin var um þá ákvörðun yfirvalda í Boston að sækjast ekki eftir því að halda Ólympíuleika. Hér var átt við mikinn kostnað við mannvirkjagerð. Framkvænd mannvirkja er út í hött. – Það þarf að lesa yfir, áður en lesið er fyrir okkur.
AUGLÝSING – EKKI FRÉTT
Þessi skrif á svokölluðu Smartlandi Morgunblaðsins (28.07.2014) um nýjar íbúðir sem eru til sölu í Garðabæ eru ekki frétt. Þau eru hrein og ómenguð auglýsing. Á Norðurlandamálunum var þetta í gamla daga kallað tekstreklame og þótti ómerkilegt og ekki fagmennska.. Hálfgert hórerí, svo notuð sé sletta.
Það er skylda Morgunblaðsins eins og annarra fjölmiðla að greina skýrt milli auglýsinga og efnis frá ritstjórn. Lesendur eiga kröfu á því. Afturför frá fyrri tíð, þegar Moggi var og hét. Sjá : http://www.mbl.is/smartland/
UNDARLEGT
Í seinni fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (30.07.2015) var sagt frá hækkun sekta fyrir misnotkun bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Það er þörf aðgerð. Fréttinni fylgdi mynd af bíl Ríkissjónvarpsins ,sem Molaskrifari gat ekki betur séð en lagt væri í stæði fyrir hreyfihamlaða! Hvaða tilgangi átti það að þjóna? Dómgreindarbrestur eða bara kjánagangur.
ÍSHELLA
Á mbl.is (29.07.2015) er sagt frá rússneskum þyrluflugmanni sem bjargaðist naumlega er þyrla hans hrapaði í sjóinn vestur af Grænlandi norðanverðu. Hann komst við illan leik upp á jaka, sem mbl.is kallar íshellu. Fyrirsögnin er: Lifði af í 32 klukkustundir á íshellu. Raunar finnst Molaskrifara í-inu ofaukið í fyrirsögninni. En svo segir í fréttinni: Hann synti þá að íshellu í hafinu og tókst að komast upp á hana. Sjá:http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/29/lifdi_af_i_32_klukkustundir_a_ishellu/
Í fréttinni er talað um neyðarskilaboð. Við tölum um neyðarkall.
GÚRKUMET
Vangaveltu,,frétt” Ríkissjónvarps um forsetakjör (28.07.2015) var dæmigerð gúrkufrétt, – löng frétt um lítið efni á fréttalitlum degi. Merkilegt hvað hægt að var teygja úr þessu og meira að segja bætt við viðtali við sagnfræði dósent, sem bætti engu, sem máli skipti, við fréttina.
Sjá: http://www.ruv.is/frett/dyrnar-ad-bessastodum-standa-galopnar
ÖFUGT
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (29.07.2015) var talaði um bæinn Blekinge i Karlskrona. Blekinge er hérað, Karlskrona er borg. Í Blekingehéraði eða léni í í Svíþjóð. https://en.wikipedia.org/wiki/Karlskrona
ILLA SKRIFAÐ
Hér er dæmi um einstaklega illa skrifaða frétt á dv.is. Í fyrstu setningunni eru tvær villur. Annað er eftir því.
Það ber ekki vott um mikinn faglegan metnað að birta svona illa unnið efni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar