«

»

Molar um málfar og miðla 1776

 

BLÉST UM KOLL

Gunnsteinn Ólafsson benti á þetta af mbl.is (17.08.2015). Fréttin var um sprengingu í Bangkok: „Þetta var svo kröft­ug spreng­ing að ég blést hrein­lega um koll og það gerðist líka fyr­ir aðra. Það féll mikið til ofan á mig,“ seg­ir Si­efert. „Ég var smurður svo miklu blóði að ég var ekki viss um hvort ég væri sjálf­ur særður. En það kom í ljós að ég var það ekki. Þetta var blóð úr öðrum.“

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/17/smurdur_blodi_annarra/

Hér má bæta við  við: Fréttabörn  ganga laus á mbl.is. Enginn virðist þarna hafa verið á vaktinni til að gæta þeirra. Þakka ábendinguna, Gunnsteinn.

 

GERÐARDÓMI VAR GERT ….

Af vef Ríkisútvarpsins (18.08.2015): ,,Gerðardómur var gert að horfa til sambærilegra kjarasamninga sem gerðir höfðu verið við sambærileg stéttarfélög að undanförnu.” Gerðardómur var ekki gert…. Gerðardómi var gert að horfa til … Einnig má hér nefna nástöðu.

 

FLEIRI ORÐ UM ENDURSÝNINGAR

Í prentaðri dagskrá í Morgunblaðinu er þess getið að tveggja eða þriggja ára gamlir Andralandsþættir séu gamalt efni, endursýnt (17.08.2015). Frá því er hinsvegar ekki greint í þeirri dagskrá, sem birt er á skjá Ríkissjónvarpsins. Er þessi sífelldi feluleikur hluti af dagskrárstefnu nýrra stjórnenda í Efstaleiti? Hversvegna má ekki segja okkur satt í dagskrárkynningum?

 

ATHYGLISVERT VIÐTAL

Molaskrifara þótti athyglisvert að hlusta á viðtal Óðins Jónssonar við Pawel Bartoszek um viðskiptaþvinganir Rússa gagnvart Íslendingum og samstöðu með bandamönnum okkar í Morgunútgáfunni að morgni miðvikudags (19.08.2015). Viðtalið má heyra hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/afstadan-til-russlands-pawel-bartoszek

 

 

 

ÞÁGUFALL – BEYGINGAR

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1700 (19.08.2015) sagði fréttamaður: ,,… þar sem skólakerfinu skorti fjármagn ..”. Les ekki fréttastjóri/ vaktstjóri fréttirnar yfir áður en þær eru lesnar fyrir okkur? Í fréttum sama miðils klukkutíma síðar sagði fréttamaður um fyrirhugaða risahöfn í Finnafirði: ,,… hann segir að upplýsingar um öldufar og veðurfar verði safnað næstu tvö árin að minnsta kosti”. Upplýsingum verður safnað. – Í sama fréttatíma var talað um að kjósa gegn samningi. Betra og réttara orðalag hefði verið að tala um að greiða atkvæði gegn samningi. Þetta hefur svo sem verið nefnt áður í Molum.

Það er þýskt fyrirtæki, Bremenports, sem sagt er standa fyrir margháttuðum og dýrum  rannsóknum vegna stórskipahafnar í Finnafirði. Þjóðverjar eru ekki sérstök siglingaþjóð svo vitað sé. Hversvegna spyr enginn fréttamaður eða kannar hvað liggi að baki þessum mikla áhuga Þjóðverja á hafnargerð í Finnafirði? Er Bremenports ef til vill að vasast í þessum rannsóknum fyrir hönd einhvers annars? Hefur verið spurt um það?

 

FORSÍÐUMYND MOGGANS

Morgunblaðið birti í gær (19.08.2015) fjögurra dálka forsíðumynd af sendiherra Rússlands þar sem hann kemur til fundar við ÓRG á Bessastöðum um viðskiptabannið.

Fréttablaðið segir frá fundinum, en birtir ekki mynd.

Spurningar vakna hjá gömlum fréttamanni:

Lét forsetaskrifstofan Morgunblaðið vita af fundinum?

Var öllum fjölmiðlum sagt frá fundinum?

Var fundurinn, ef til vill haldinn að frumkvæði Morgunblaðsins?

Eða var árvökull ljósmyndari Morgunblaðsins bara á langri biðvakt við Bessastaði?

Hugsanlega var hann staddur þarna af einskærri tilviljun.

Alla vega vissi Morgunblaðið nákvæmlega hvað stæði til og hvenær.

Ekki varð Molaskrifari þess var, að sjónvarpsstöðvarnar birtu myndir af komu rússneska sendiherrans til Bessastaða.

Hafi svo verið, hefur það farið fram hjá honum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>