«

»

Molar um málfar og miðla 1777

MÁLFAR Í ÍÞRÓTTAFRÉTTUM

Velunnari Molanna skrifaði (19.01.2015) : ,,Blessaður, Eiður.

Það er til að æra óstöðugan að amast við málfari íþróttafréttamanna, eins og við höfum áður rætt, og ekki því að heilsa að þeir „standi uppi sem sigurvegarar“ á þeim velli eða vinni þar „sannfærandi sigra“. En ekki er ótítt að þeir „fari alla leið“ í vitleysunni, sbr. forsíðu íþróttablaðs Mbl. í morgun, 5 dálka frétt. Þar segir frá því að fótboltamaður nokkur hafi verið „sannarlega allt í öllu þegar Manchester United sneri aftur á FJALIR Meistaradeildar Evrópu…“ Hvað skyldi leikhúsfólk segja um þetta?!” Bréfritari segir líka:

,, Eitt sem ég hnýt iðulega um í hljóðvarpinu er að komið er langt út í fréttina, þegar loks er nefnt hvaða íþrótta/boltagrein eða keppni um er að ræða. Eðlilegra þætti mér að snúa þessu sem mest við.

Dæmi (tilbúið): Jón Jónsson stóð sig frábærlega í gærkvöldi, þegar hann skoraði sigurmark Gróttu í húðarrigningu í viðureigninni við FH á Kaplakrikavelli, þar sem félögin áttust við í undanúrslitaleik Pepsi deildarinnar í fótbolta.

Það eru væntanlega úrslitin sem eru aðalfréttin og hvort þetta var fótbolti, handbolti, körfubolti.” Molaskrifari þakkar bréfið og réttmætar ábendingar,

– Já, hvað skyldi leikhúsfólk segja um fjalirnar? Íþróttafréttamenn eiga að leggja rækt við vandað málfar, – rétt eins og aðrir fréttamenn.

 

VERÐA AF …

K.Þ. vekur athygli á eftirfarandi á pressan.is (18.08.2015): „Áætlað er að Litháen verði að um 2,6 prósentu af landsframleiðslu sinni …“

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/08/18/lithaen-fornar-umtalsvert-meiru-en-island/

Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það er því miður æ algengara að fréttaskrifarar skynji ekki, eða skilji ekki til hlítar muninn á af og á.

 

HRÓS

Spegill Ríkisútvarpsins fær hrós fyrir  vandaða umfjöllun að undanförnu um nýtingu jarðvarma hér á landi. Jón Guðni Kristjánsson hefur mest fjallað um þetta. mikilvæga mál. Síðast í gærkvöldi var mjög fróðlegt (20.08.2015) viðtal  við Stefán Arnórsson, prófessor emerítus. Það hljómar ekki vel, heldur afar illa og er grafalvarlegt mál, að ekki hefur verið hlustað á aðvaranir vísindamanna og leikmanna   (Ómars Ragnarssonar, til dæmis) um að alltof hart sé framgengið og nýting jarðhitans sé ekki sjálfbær, heldur megi fremur líkja henni við námavinnslu, þar sem náman  tæmist og orkan gengur til þurrðar. Það segir sig sjálft, ef bora þarfa nýja holu árlega til að halda framleiðslu Hellisheiðarvirkjunar sæmilega í horfinu, – – þá er eitthvað að. Það hljómar líka einkennilega, einnig í eyrum leikmanns, að hitasvæðum eins og Hengilssvæðinu og Reykjanesinu sem eru jarðorkuheildir, skuli skipti í vinnslusvæði og litið á hvert svæði sem sjálfstæða einingu. Allt hangir þetta saman.

Það má til dæmis ekki gerast að virkjunarvörgum,sem Molaskrifari leyfir sér að kalla svo, sé sleppt lausum og þeim leyft að eyðilegga Eldvörpin , einstæða 10 km langa gígaröð skammt frá Grindavík. Það yrðu ekki aðeins óafturkræf, heldur ófyrirgefanleg náttúruspjöll. Það má ekki gerast. – Nú eigum  við að hlusta á varnaðarorðin og staldra við. Ekki halda klúðrinu áfram.

 

BLÆS EKKI BYRLEGA

Tvisvar sinnum með skömmu millibili hefur Molaskrifari heyrt fréttamenn segja:,, Það blasti ekki byrlega fyrir …..” Þegar átt var við að horfur væru ekki góðar, útlitið framundan ekki gott. Á miðvikudagskvöld sagði reyndur fréttamaður Stöðvar tvö: ,,Það blasti ekki byrlega fyrir byggðinni hér á Þingeyri, þegar …” Rétt hefði verið að segja, – Það blés ekki byrlega fyrir byggð hér á Þingeyri, þegar …. – Horfurnar voru sem sé ekki góðar. – Lesandi benti á í athugasemd, að fréttamaður hefði sagt billega , en ekki byrlega.  Það heyrði Molaskrifari hins vegar ekki.

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV551A8904-84F7-4F81-8335-5232C837F086

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>