«

»

Molar um málfar og miðla 1778

 

ÓMAR KVADDI VÍSU

G.G. skrifaði (20.08.2015) og vísar til viðtals við Ómar Ragnarsson,sem var á ferð á rafknúnu reiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur og sló víst nokkur met í ferðinni: „…þú kvaddir vísu á leiðinni…“, sagði umsjónarkona þáttar á RÚV, í símtali við Ómar Ragnarsson! Kvaddi hann margar hálfkveðnar vísur á leiðinni, hver veit? En tilgangurinn var að biðja Ómar að fara með vísu sem hann „kvað“. Molaskrifari þakkar ábendinguna og getur lítið annað sagt, en: Ja, hérna!

LOKANIR LEYSTAR UPP

Á vef Ríkisútvarpsins (20.08.2015) er vitnað í bréf frá Reykjavíkurborg til íbúa á svæði í borginni sem lokað verður fyrir bílaumferð á laugardag vegna menningarnætur. Í tilvitnuninni segir: ,,Þá segir að ekki sé hægt að komast aftur með farartæki inn á hátíðarsvæðið fyrr en lokanir hafa verið leystar upp.” Lokanir leystar upp? Hvernig er það gert? Væri ekki eðlilegra að tala um að aflétta lokunum, opna að nýju, frekar en að leysa lokanir upp? Borgarstjóri þarf málfarsráðunaut.

 

KENNSL

Af mbl.is (20.08.2015): ,,Enn hef­ur ekki verið bor­in kennsl á lík karl­manns­ins sem fannst við Sauðdráps­gil í Laxár­dal í Nesj­um í gær.” Orðið kennsl er fleirtöluorð. Ekki til í eintölu. Því ætti að standa þarna: ,,Enn hafa ekki verið borin kennsl á líkið, — enn er ekki ljóst hver þetta var .

 

ALGENG VILLA

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (20.08.2015) voru sýndar myndir frá kínversku hafnarborginni Tianjin þar sem gífurleg sprenging olli nýlega miklum mannskaða og gífurlegu tjóni. Um myndirnar sagði fréttamaður:,, … virðast sýna dauða fiska,sem rekið hafa á land”.  Hér hefði átt að  tala um fiska sem hefði rekið á land. Fiskarnir ráku ekki á land. Fiskana rak á land. Á þessu er munur.

 

 

 

BJÓRÁRÓÐUR RÍKISSJÓNVARPS

Kjarni umfjöllunar Ríkissjónvarpsins í fréttum um Menningarnótt í Reykjavík á laugardag/laugardagskvöld (22.08.2015) var áróður og auglýsing fyrir bjórdrykkju. Furðulegt. Stundum er það í Efstaleiti eins og menn hvorki skeyti um skömm né heiður. Vita ekki hvað til síns friðar heyrir.

 

HELGARVIÐVANINGAR

Hversvegna heyrir maður aftur og aftur að svo virðist sem viðvaningar séu nokkuð oft látnir sjá um og lesa fréttir í Ríkiútvarpinu um helgar og á nóttinni ? Halda yfirmenn að við heyrum þetta ekki?

Nýliða á að þjálfa og þeim þarf að leiðbeina, áður en þeir byrja að lesa fréttir fyrir okkur.

 

GÓÐUR ÞÁTTUR UM GYLFA Þ.

Firna góður þáttur í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (23.08.2015) um Gylfa Þ. Gíslason. Gylfi var meðal merkustu stjórnmálamanna 20. aldar. Hann og Bjarni Benediktsson brutu haftakerfið á bak aftur og beittu sér fyrir aðild okkar að EFTA, þegar Viðreisnin var við völd. Molaskrifari naut þeirra forréttinda að kynnast Gylfa, og starfa í námunda við hann, ekki síst á Alþýðublaðsárunum. Þessi þáttur var vandaður og vel unninn. Það á raunar við um fleiri Íslendingaþætti sjónvarpsins. Andrés Indriðason á miklar þakkir skildar  fyrir  þá natni og alúð,sem hann hefur lagt í þessa þætti. Takk.

 

SKEMMTILEGASTA GATAN

Sennilega er Skólavörðustígurinn orðin skemmtilegasta gatan í Reykjavík. Molaskrifari gekk Skólavörðustíginn fram og til baka í blíðunni á fimmtudag í liðinni viku. Þarna var iðandi mannlíf; margir á ferli. Ekki bara ferðamenn. Verslanir og veitingastaðir af öllu tagi. Hægt að fá sér kaffisopa inni eða úti. Svolítill útlandabragur sveif yfir þessari gömlu götu.

Gönguferðinni lauk í Hallgrímskirkju þar sem tveir snillingar voru að æfa sig fjórhent á orgelið magnaða, – sennilega í tengslum við Kirkjulistahátíðina. Svo sannarlega ómaði kirkjan öll, eins og þar stendur. Það var góður endir á stuttri gönguferð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>