«

»

Molar um málfar og miðla 1779

ALVEG FYNDIÐ

G.G. skrifaði (22.08.2015): ,, Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta:
http://www.ruv.is/frett/malvilla-a-morg-thusund-verdlaunapeningum

Þetta er alveg fyndið…“ sagði upplýsingarfulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur um villu í áletrun verðlaunapeninga. Engan skyldi undra að hún rak ekki augun í þetta í byrjun! ,,Alveg“ er nú troðið í ólíklegustu setningar. Þannig segir í prentuðu samkomulagi um félagslega ráðgjöf Reykjavíkurborgar, að beiðni þurfi að skila með skráningu á ,,alveg 4 störfum mánaðarlega.“ Líklega er átt við ,,að minnsta kosti“. Borgin þarf greinilega málfarsráðgjöf!
http://www.visir.is/article/20150822/FRETTIR01/150829632
Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta er borginni ekki til sóma. Fleiri aðstoðarmenn og ráðgjafa til ráðgjafar í ráðhúsinu!

 

UMRÆÐA TIL UMRÆÐU

Leiðari Morgunblaðsins á laugardag (22.08.2015) hefst svona: ,,Umræða um vopnasölubann á Rússland og viðbrögð rússneskra stjórnvalda við því hefur verið mjög til umræðu að undanförnu, sem von er ….”. Umræðan hefur verið til umræðu! Það var og. Skrítin hugsun. Molaskrifara finnst leiðarinn vera hálfgert sífur, sem að líkindum má rekja til þess hverjir hagsmunir eigenda Morgunblaðsins eru. http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/grein/1942700/

Leiðari Kristínar Þorsteinsdóttur í Fréttablaðinu sama dag er hinsvegar skrifaður af meiri yfirvegun, yfirsýn og skilningi, en leiðari Morgunblaðsins,sem vísað er til hér að ofan. http://www.visir.is/hvar-a-island-heima–/article/2015150829666

 

AÐ BRENNA FYRIR MÁLEFNI

Til að safna fé fyrir málefni,sem þú brennur fyrir. Eitthvað á þessa leið er tekið til orða í auglýsingu frá Íslandsbanka (Ríkissjónvarp 22.08.2015). Molaskrifara finnst þetta vera ambaga. Safna fé fyrir málefni, eða málstað, sem þú hefur brennandi áhuga á, er sennilega það sem átt er við.

 

GERT ÚT Á GLEYMSKUNA

Oft er gaman að Staksteinum Moggans. Þar er í dag (25.08.2015) gert út á fáfræði  eða gleymsku lesenda. Óspart er gert grín að því að starfsmenn ESB hafi farið í sumarfrí. Tók ekki ríkisstjórn Íslands sér 40 daga sumarfrí í sumar , það lengsta í sögu nokkurrar ríkisstjórnar á Íslandi? Ríkisstjórnin var yfirleitt ekkert  til viðtals þá  daga.,,Ekki náðist í ráðherra við vinnslu fréttarinnar”.Heldur Moggi að þjóðin hafi ekkert tekið því? Moggamenn þekkja sennilega ekki mikið til í Evrópu. Ekki frekar en öðrum útlöndum. Í Evrópu taka langflestir sér sumarfrí á sama tíma. Norðmenn tala um síðustu þrjár vikurnar í júlí sem fellesferien. Sunnar í Evrópu er ágúst sumarleyfamánuðurinn. Þá eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir lokaðar.

 

AÐ SETA HÁTÍÐ

Svo mun borgarstjóri seta hátíðina, eitthvað á þessa leið sagði viðmælandi, sem talaði fyrir hönd Reykjavíkurborgar við fréttamann Bylgjunnar í hádeginum á laugardag (22.08.2015). Sögnin að seta er ekki til. Átt var við að borgarstjóri mundi setja hátíðina, lýsa yfir að hún væri formlega hafin.

 

BAK VIÐ HÁLSINN?

Úr frétt á mbl.is (22.08.2015):, ,,Hann skar hann bak við háls­inn og skar nán­ast af hon­um þumal­inn líka”. Bak við hálsinn? Ekki vel orðað. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/22/skilid_byssunni_minni/

Skar hann á hálsinn aftan til, hefði til dæmis verið ögn betra. Í íslensku gerum við ekki greinarmun á hálsinum að innan og utan eins og gert í ensku, throat og neck. Ég er með hálsbólgu. Ég er með hálsríg.

Um þetta skrifaði T.H. Molum (22.08.2015): „Hann skar hann bak við háls­inn …“
Ef þessi háls er í landslagi, væri kannski eðlilegra að segja „handan við hálsinn“, en ef hér er átt við líkamshluta er „á bak við hálsinn“ í lausu lofti. Kannski er átt við að maðurinn hafi verið skorinn aftan á hálsinn, en þá á líka að segja það og ekki svona bull. Læra fréttabörnin ekkert? – Kærar þakkir, T.H.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>