«

»

Molar um málfar og miðla 1780

EFTIRMÁL- EFTIRMÁLI

Molavin skrifaði: „Þetta hef­ur American Ban­ker eft­ir Guðrúnu Johnsen í grein um eft­ir­mála banka­hruns­ins á Íslandi.“ Þetta er úr grein í Morgunblaðinu 21. ágúst og ljóst að ýmsir blaðamenn lesa ekki reglulega umfjöllun um málfar. Um mun á merkingu orðanna „eftirmál“ og „eftirmáli“ hefur verið rækilega og ítrekað fjallað á þessum vettvangi sem og í hinum ágæta, daglega málfarspistli Morgunblaðsins. Kæruleysi blaðamanna er á ábyrgð yfirmanna þeirra.

– Þakka bréfið, Molavin.- Hér er við blaðamann að sakast, – ekki þann sem vísað er til.

 

BER EKKI MIKIÐ Á SÉR

Þorvaldur skrifaði (24.08.2015): ,,Sæll Eiður.
Morgunblað dagsins segir frá gervigrasvelli á Álftanesi: „Hann ber ekki mikið á sér ennþá en á að verða hinn glæsilegasti“.

Einnig segir frá fornleifaverði austur í Palmyra sem var „afhöfðaður af hermönnum“.

Leiðinlegt að sjá svona meðferð á málinu í jafnágætu blaði”.

Kærar þakkir fyrir bréfið, Þorvaldur. Það skortir því miður á gæðaeftirlit með skrifum í Morgunblaðinu í þessum efnum, eins og fleiri fjölmiðlum reyndar, því miður.

 

ENDURTEKIÐ EFNI

Í gærkvöldi (25.08.2015) var sýnd frétt í Ríkissjónvarpinu um ostagerð og laukræktun í Rússlandi. Nákvæmlega sama frétt hafði verið sýnd áður í sama miðli. Hvað er að gerast?  Er engin verkstjórn lengur á fréttastofunni í Efstaleiti?

Hve oft var okkur sögð fréttin af ólánssama stráklingnum sem óvart skemmdi verðmætt málverk á Taívan? Molaskrifari telur sig hafa heyrt hana allt að fimm eða sex sinnum. Alltaf var tekið fram að myndin hefði verið vel tryggð!!!

 

STRENDUR ÞORLÁKSHAFNAR

T.H. skrifaði Molum (22.08.2015) og vísar til þessarar fréttar mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/22/leita_ad_byssum_18_aldar_herskips/

,,Stefnt er að því að gera út leiðang­ur til að finna keðjur, fall­byss­ur og bal­lest danska her­skips­ins Gauta­borg sem fórst við strend­ur Þor­láks­hafn­ar árið 1718.“
Er það já? Strendur Þorlákshafnar geta nú vart verið margar; í albesta falli ein. – Réttmæt athugasemd. Undarlegt orðalag.

 

FJÖLMENNUR STOFN

Og hér er annað bréf frá T.H.:
,,Veiðimenn í Nýja Sjálandi voru fengnir til þess að grisja fjölmennan stofn en skutu þess í stað afar sjaldgæfa fugla“
Ég neita að trúa að hér hafi átt að grisja ,,fjölmennan stofn“, því þá væri verið að biðja um manndráp.
Fjölmenni = mannfjöldi.
Hér hlýtur að vera átt við stóran fuglastofn.” Rétt , T.H. Þakka bréfið. Þar að auki er fast í málinu að segja á Nýja Sjálandi, ekki í Nýja Sjálandi.

Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/8/21/drapu-5-af-villtum-stofni-afar-sjaldgaefra-fugla/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>