«

»

Molar um málfar og miðla 1791

UM OFNOTKUN

JBG. sendi Molum þetta ágæta bréf (08.09.2015): ,,Sæll, Eiður! Hvað finnst þér um (of)notkun orðsins „grasrót“? Nú er sýknt og heilagt verið að vitna til þessarar blessuðu „grasrótar“; hvað henni finnist; að nauðsyn beri til að hlusta á vilja hennar; að hún verði að fá að tjá sig. Ég veit ekki um þig en í mínu umhverfi þegja grasrætur alltaf þunnu hljóði!
Ekki þá má ekki gleyma orðtakinu “ að stíga varlega til jarðar“! Nú orðið fer ekki nokkur maður fram með gát, sýnir aðgæslu né fer varlega. Nei, hann „stígur varlega til jarðar“!
Og hvað finnst þér um „heildarlausnir í skipulagi leikvalla“? Eru leikvellir /skipulag þeirra (og mörg önnur fyrirbrigði í daglegu lífi og í umhverfi okkar) orðnir vandamál? Það hlýtur að vera!
Og svo eru það blessaðir hraðbankarnir. Er hægt að „vinna“ beiðni? Eftir minni málvitund bregst maður við beiðni, maður verður við henni, svarar henni, sinnir henni. En maður „vinnur“ hana ekki sem hvert annað verk eða verkefni.
Stígðu heill á storð! JBG” – Kærar þakkir fyrir bréfið, JBG.

 

INDÍÁNASUMAR?

Dálitið undarlegt að heyra fréttamenn Ríkisútvarps tönnlast á orðinu ,,Indíánasumar” um hlýindadagana fyrir austan að undanförnu. Á ensku (einkum vestanhafs) er talað um Indian summer , hlýindatímabil seint í september, október eða jafnvel enn síðar. Allsendis óvíst að þetta tengist Indíánum með nokkrum hætti. Sumarauki, segja sumir á íslensku, en það orð er notað um annað samkvæmt íslenskri orðabók og almanaki (Sjá það sem segir um sumarauka hér: http://www.almanak.hi.is/f2.html. )

En vissulega er það sumarauki, blíðviðrið, sem menn hafa notið eystra að undanförnu. Og Molaskrifara finnst það raunar ágætishugmynd að gefa þessu gamla, nú lítt notaða orði ,nýja merkingu og hætta að nota hráþýðingu úr erlendu máli um góðviðriskafla á hausti.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>