«

»

Molar um málfar og miðla 1792

SEINT BRUGÐIST VIÐ

Fréttastofa Ríkisútvarpsins var lengi að taka við sér og skynja að í Evrópu eru að gerast mestu stórtíðindi og hörmungar seinni ára. Stöð tvö var fljótari að átta sig.  Það var ekki fyrr en á miðvikudag að fréttamaður Ríkisútvarps var kominn þangað sem atburðirnir voru að gerast í Evrópu og Ingólfur Bjarni Sigfússon stóð og stendur þar vel fyrir sínu. En það ber ekki vott um góða stjórnun eða gott fréttamat að bregðast ekki fyrr við.

 

AÐ KAUPA – AÐ VERSLA

Fyrirsagnasmiðum Kjarnans er ekki ljós merkingarmunur sagnanna að kaupa og að versla. Erlendir fjárfestar versla enn meira af ríkisskuldabréfum, sagði í fyrirsögn á fimmtudag (10.09.2015.) Í upphafi fréttarinnar er hinsvegar réttilega sagt: ,,Erlendir fjárfestar héldu áfram að kaupa innlend ríkisskuldabréf í síðasta mánuði. http://kjarninn.is/2015/09/erlendir-fjarfestar-versla-enn-meira-af-rikisskuldabrefum/

 

AÐ STÍGA Á STOKK

Í þætti um bókmenntahátíð í Reykjavík, sem endurtekinn var í Ríkisútvarpinu aðfaranótt fimmtudags (10. 09.2015) var sagt frá því að Þóra Einarsdóttir söngkona mundi þar stíga á stokk. Þóra ætlaði að koma fram á hátíðinni og syngja. Hún ætlaði ekki að stíga á stokk og strengja heit. – Málfarsráðunautur þarf enn að brýna fyrir dagskrárgerðarfólki að fara rétt með þetta orðtak.

 

HÁLFNÓTAN

Hálfnótan í umsjón Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur á Rás eitt á morgnana á virkum dögum er fín viðbót við morgunútvarpið. Þátturinn mætti að skaðlausu vera lengri. Það voru óskiljanleg mistök að vera með sama langa þáttinn samtímis á báðum rásum. Þetta er góð breyting.

 

AFTUR OG AFTUR

Aftur og aftur eru fréttir Ríkissjónvarps fluttar til og Kastljós fellt niður vegna boltaleikja, sem nægur sómi væri sýndur með því að sýna þá á íþróttarásinni, sem svo er nefnd.

Við áhorfendur erum sjálfsagt nokkuð margir, sem sýnist að íþróttastjóri Ríkisútvarpsins sé orðinn næsta einráður um dagskrána. Stjórni því hvenær fréttir eru fluttar frá sínum fasta stað í dagskránni og hvenær Kastljósið er fellt niður. Þannig á það ekki að vera. Og er nú nóg sagt að sinni. Þykir ýmsum líklega að mikið sé nöldrað, en Molaskrifari þykist þó vera sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum!

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>