GÓÐ UMFJÖLLUN
Í fréttum Ríkissjónvarps (12.09.2015) var prýðileg umfjöllun um ólöglega og forkastanlega framkomu íslenskra vinnuveitenda við erlent verkafólk, sem hingað kemur til starfa í skamman tíma, einkum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Fulltrúi pólska sendiráðsins á Íslandi staðfesti þetta kurteislega og með hógværð í viðtali í fréttatímanum. Þetta er okkur til skammar. Sjónvarpið á að fylgja þessu eftir og gott er að fram komi hvaða fyrirtæki, hvaða vinnuveitendur koma hér við sögu.
GLEIÐ – GLÖÐ
Gleið á frumsýningu Georgs Guðna, sagði í fyrirsögn á Smartlandi mbl.is (12.09.2015) http://www.mbl.is/smartland/samkvaemislifid/2015/09/12/gleid_a_frumsyningu_georgs_gudna/
Molaskrifara og ýmsum öðrum kann að hafa þótt þetta undarleg fyrirsögn, þótt gleiður geti reyndar þýtt kátur, glaðhlakkalegur. Svo kom í ljós að þetta var bara venjuleg Smartlandsvilla því fyrirsögnin var leiðrétt: Glöð á frumsýningu Georgs Guðna. http://www.mbl.is/smartland/samkvaemislifid/2015/09/12/glod_a_frumsyningu_georgs_gudna/
Með fréttinni eru birtar myndir af fólki sem var við frumsýningu myndarinnar um listmálarann Georg Guðna. Molaskrifari hefur séð myndina. Þetta er vönduð heimildamynd um mikinn listamann, sem féll frá langt um aldur fram. Myndin er aðstandendum öllum til sóma, en sumum gæti þótt að hún þyldi svolitla styttingu.
HÚS – HÚSNÆÐI
Úr frétt á mbl.is (10.09.2015): ,,Björgunarsveitin Lífsbjörg í Snæfellsbæ var kölluð út rétt fyrir klukkan 12 í dag þar sem þakplötur voru að losna af gömlu fiskverkunarhúsnæði á Hellissandi.” Ekkert rangt, strangt til tekið, að tala um fiskverkunarhúsnæði. En Molaskrifara hefði þótt eðlilegra að tala um gamalt fiskverkunarhús, fremur en gamalt fiskverkunarhúsnæði. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/10/thakplotur_fuku_a_hellissandi/
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar