«

»

Molar um málfar og miðla 1794

 

ALGENG VILLA

Það er orðið æ algengara að sjá þessa villu; fyrirsögn á visir.is (13.09.2015): Fimm til tíu skipulagðir glæpahópar starfi á höfuðborgarsvæðinu http://www.visir.is/fimm-til-tiu-skipulagdir-glaepahopar-starfi-a-hofudborgarsvaedinu/article/2015150919518

Þetta hljómar eins og verið sé að ráðgera að fimm til tíu skipulagðir glæpahópar skuli starfa á höfuðborgarsvæðinu. Undarleg meinloka. Hugsunarvilla. Í skýrslu lögreglunnar er talið, að sennilega starfi fimm til tíu skipulagðir glæpahópar á höfuðborgarsvæðinu. Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem semja fyrirsagnir frétta og skrifa fréttir  að þeir séu betur að sér um notkun móðurmálsins, en þetta ber vott um.

 

GAMALL LEIKUR

Leikurinn var ekki nema fimm mínútna gamall, (þegar eitthvað markvert gerðist) sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö ( 13.09.2015).

Molaskrifara hefur alltaf þótt þetta heldur hvimleitt orðalag. Heyrist hjá íþróttafréttamönnum og apar þar hver eftir öðrum.  Hvað, ef eitthvað markvert gerist til dæmis á átttugustu og annarri mínútu leiksins? Er þá leikurinn áttatíu og tveggja mínútna gamall eða á hann þá átta mínútur ólifaðar? Molaskrifara finnst þetta svona heldur kjánalegt orðalag.

 

HÚSIÐ INNIHELDUR …

Mörg er snilldin á svokölluðu Smartlandi mbl.is. Þetta var skrifað þar nýlega (13.09.2015): ,,Söng­kon­an Miley Cyr­us keypti sér hús á 435 millj­ón­ir króna þegar hún var aðeins 17 ára. Húsið inni­held­ur fjög­ur svefn­her­bergi og fimm baðher­bergi.”.

 Í húsinu eru fjögur svefnherbergi. Húsið inniheldur ekki herbergi. Í því eru herbergi.

 

ENDURTEKIÐ EFNI

Eftir hádegi á laugardag (12.09.2015) hlustaði Molaskrifari á þátt á Rás eitt um dægurtónlist á tuttugustu öldinni, Aldamótaljóð og íslensk sönglög. Þetta var þáttur númer tvö í röðinni. Fróðlegur þáttur og skemmtilegur, eins og umsjónarmanna var von og vísa, en það voru þeir Jónatan Garðarsson og Ásgeir Tómasson.

Í þáttarlok var sagt, að þetta væri endurflutt efni frá árinu 2001. Það eru hinsvegar undarleg vinnubrögð að á heimasíðu Ríkisútvarpsins er hvorki greint frá því að þetta sé endurtekið efni né hverjir séu umsjónarmenn og eiga þeir þó sannarlega heiður skilinn.

 

HRÓS

Kastljós gærkvöldsins (14.09.2015) fær sérstakt hrós fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um flóttamannavandann. Fáir, sem sáu hafa sennilega verið ósnortnir. Þetta geta menn í Efstaleiti, þegar þeir leggja sig fram. Takk.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>