«

»

Molar um málfar og miðla 1810

 

ÁBENDINGAR HUNDSAÐAR

Arnar Kári skrifaði (07.10.2015): Sæll Eiður,
fyrst vil ég þakka þína þrotlausu vinnu.
Ég rak annars augun í frétt Vísis, http://www.visir.is/marple-malid–krofu-hreidars-um-ad-domarinn-viki-hafnad/article/2015151009032,

og hef í sjálfu sér ekkert slæmt um hana að segja.
Það er samt tvennt í fréttinni sem ég ákvað að gera athugasemdir við, sendi bæði á blaðamanninn og einnig á ritstjórn Vísis.
Annars vegar benti ég á að úrskurðum héraðsdóms er ekki áfrýjað heldur eru þeir kærðir til Hæstaréttar.
Hins vegar benti ég viðkomandi á að bæði er skrifað meðdómari og meðdómandi í greininni.
Þremur klukkustundum eftir að ég sendi þessar vinsamlegu ábendingar hefur fréttin ekki verið leiðrétt.
Þetta eru ekki alvarlegar villur en ég hefði talið að fjölmiðill leiðrétti villur sínar þegar á þær er bent. – Kærar þakkir Arnar Kári. – Hef tekið eftir því að sömu villurnar standa oft lengi óleiðréttar.

 

ÓSKILJANLEGT

T.H. skrifaði (07.10.2015) og benti á þessa frétt á mbl.is:

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/10/07/verda_allir_ad_koma_aftur/

„Eig­end­ur skips­ins hafa greint frá því að knún­ingsafl skips­ins hafi gefið sig og því hafi ekki verið hægt að forðast óveðrið.“
Ég er því miður svo illa að mér að þetta skil ég bara ekki. – Molaskrifari bætir við, – og ert væntanlega ekki einn um það. Þakka bréfið.

 

ÁÆTLUNARFLUG FRÁ EGILSSTÖÐUM

Í fréttum á miðvikudag (07.10.D015) var greint frá því að bresk ferðaskrifstofa ætlaði að hefja beint áætlunarflug frá Egilsstöðum til Lundúna með viðkomu í Keflavík. Þetta var fréttefni  síðast í  morgun (09.10.2015). Samkvæmt þeirri landafræði sem Molaskrifari lærði væri eðlilegra að tala áætlunarflug til Keflavíkur með viðkomu eða millilendingu á Egilsstaðaflugvelli. En fróðlegt verður að sjá hvernig þessi tilraun tekst.

 

 

KILJAN

Kiljan var góð á miðvikudagskvöldið (07.10.2015). Lofar góðu um framhaldið í vetur. Fjölbreytt efni, góð efnistök og tæknilega vel úr garði gerður þáttur. Með því áhugaverðasta í dagskrá Ríkissjónvarpsins frá sjónarhóli Molaskrifara. Eins og raunar undanfarin ár.

 

AULAHROLLUR

Molaskrifari á erfitt með að verjast því að um hann fari einskonar aulahrollur, þegar fjölmiðlar kalla alla fræga útlendinga  sem heimsækja Ísland,,Íslandsvini”. Kastljós í gærkveldi (08.10.2015). Og ekki batnaði það, þegar farið var ræða við Dani á ensku.

Takk fyrir viðtalið við Helgu Þórarinsdóttur víóluleikara. Þar fer hugrökk kona.  Það minnir okkur á hvernig lífið getur umhverfst á einu augnabliki.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>