«

»

ÓRG Á SPRENGISANDI

Næstum hálfs annars klukkutíma viðtal Sigurjóns M. Egilssonar við ÓRG í Sprengisandi  á Bylgjunni á sunnudag (11.10. 2015) var um margt athyglisvert.

Frammistaða spyrils var ágæt. Viðtalið var líka athyglisvert,  vegna þess sem ekki var sagt, sem ekki var spurt um. Dæmi:

– Hver/hverjir fjármagna Arctic Circle ráðstefnuna?

Hvað kostar hún? Eru reikningsskil fyrri funda opin og aðgengileg? Greiðir íslenska ríkið hluta af kostnaðinum?

Eða er þetta einkamál? Þetta hefur kannski verið birt, en farið fram hjá mér

Forsetinn nefndi  meðal annars risahöfn sem ,,stórt fyrirtæki í Þýskalandi ætlar að gera í samvinnu við Íslendinga” í Finnafirði norður. Hver er aðkoma forsetans að því máli? Er hann sannfærður um að þar séu Þjóðverjar (sem ekki eru mikil siglingaþjóð, svo vitað sé) í aðalhlutverki?

Forsetinn talaði um sögufölsun og  góða samvinnu við Bandaríkin. Norðurslóðir væru burðarás í þeirri samvinnu.

Hann nefndi réttilega hlut Bjarna Benediktssonar í inngöngunni í Nató. Nefndi hinsvegar ekki að forystumenn Alþýðuflokks og Framsóknarflokks höfðu þar líka í forystu. Miklu skiptu tengsl Alþýðuflokksins við forystumenn jafnaðarmanna í Noregi og Danmörku á þeim árum. Norðmenn, norskir kratar, sem þá réðu ríkjum í Noregi, lögðu ofuráherslu á að Ísland yrði stofnaðili að Nató. Íslensk aðild væri hluti þess að tryggja varnir Noregs.

Þess er sjaldan getið að Halldór Ásgrímsson varð  einna fyrstur, ef ekki fyrstur íslenskra stjórnmálamanna til að tala um mikilvægi Norðurskautsráðs, Arctic Council, að ég best veit. Nefndi það oft í umræðum hérlendis og  erlendis. Ekki minnist ég þess, að ÓRG hafi lagt þeim málstað lið á sínum tíma, enda hvorki búinn að finna norðurpólinn né finna upp heitaveituna þá.

Þögnin getur líka falið í sér sögufölsun.

Hversvegna var ÓRG ekki spurður um hversvegna hann vildi, þegar hann var í pólitík, leggja niður beint flug milli Íslands og Bandaríkjanna? Steingrímur Hermannsson átti mikinn þátt í að koma í veg fyrir þau áform hans. ÓRG vildi líka minnka flugstöðina í Keflavík. Hann fékk því framgengt að hluta. Kallaði hana ,,hernaðarmannvirki”, muni ég rétt. Hann var þá almennt á móti Bandaríkjunum. Þetta eru sögulegar staðreyndir.

Svo á forseti Íslands  ekki að tjá sig um það opinberlega í hverjum greinum hann er sammála eða ósammála stefnu sitjandi ríkisstjórnar eins og hann gerði í viðtalinu.

Forsetinn talaði um hve Singapúr og Suður Kórea væru mikilvæg ríki. Í norðurslóða samstarfi? Eða var það til að réttlæta fyrirhugaðar opinberar heimsóknir til þessara tveggja ríkja á næstunni eins og fram hefur komið opinberlega?

Það var rangt hjá ÓRG og spyrill andmælti ekki að Icesave málinu hefði lokið með dómi EFTA dómstólsins. Icesave er nú lokið. Því lauk fyrir fáeinum vikum með samkomulagi um milljarða greiðslur Íslendinga til Breta og Hollendinga. Þeir fengu ekki eins mikið og þeir vildu. En við borguðum. Gengum á gjaldeyrisvarasjóðinn. Þetta er ferskt í hugum flestra. Sögunni verður ekki breytt með svona yfirlýsingum í útvarpsviðtali.

Undarleg voru sum ummæli ÓRG um nýja stjórnarskrá og margt sem því tengist. Væntanlega munu margir gera athugasemdir það sem hann sagði um þau efni. Sérstaklega var  athyglisvert að heyra hann tala um ,,pólitíska refskák og hrossakaup.” Meðan ég starfaði í pólitík 1978 til 1993 þekkti ég engan mann sem var jafnmikill sérfræðingur og jafn útsmoginn í hrossakaupum og pólitískri refskák og einmitt hver ????

Gat eiginlega ekki orða bundist.

 

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Fram hefur komið að ÓRG hefur fundað með ráðamönnum Bremenports. Hver er aðkoma hans að málinu? Hagsmuna hverra er hann að gæta? Þetta er ekki í lagi.

  2. Sigurður Sunnanvindur skrifar:

    Fyrirtækið Bremenports sem undirbýr stórskipahöfn í Finnafirði í samvinnu við Verfræðistofuna Eflu er skráð í Þýskalandi en er Kínverskt.
    Bremenports er jafn Kínverskt og fyrirtækið London Mining sem áformaði risastóra járnnámu á V Grænlandi og ætlaði að reka þar Kínverskt vinnubúðagúlag sem yrði undanskilið Grænlenskum kjarasamningum og vinnulöggjöf.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>