«

»

Molar um málfar og miðla 1821

 

Æ ALGENGARA ORÐALAG

Í morgunútvarpi Rásar tvö (23.10.2015) var sagt um tónlistarmann: ,,Hún er ekki búin að gefa út plötu í (3?) ár”. Svona orðalag heyrist æ oftar. Einfaldara og betra: Hún hefur ekki gefið út plötu í þrjú ár.

 

STÍGA TIL HLIÐAR

Aftur og aftur var tönnlast á því í öllum miðlum um liðna helgi , að Guðlaugur Þór hefði stigið til hliðar sem ritari Sjálfstæðisflokksins. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs, dró sig í hlé, ákvað að hætta sem ritari Sjálfstæðisflokksins. Óvenju áberandi dæmi um hvernig hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum óvandað orðalag, gagnrýnilaust.

 

SLETTUR

Eru sletturnar sem of oft heyrast í stundum ágætu morgunútvarpi Rásar tvö eitthvað sem er óhjákvæmilegt? Á föstudag (23.10.2015) notaði einn umsjónarmanna enska orðið definitely , svona eins og til áherslu. Fimm eða sex sinnum var sagt um íslenska hjómsveit, að hún væri að meikaða (e. make it), henni vegnaði vel , nyti vinsælda, í Ameríku. Líka var talað um gott brand, vörumerki.

Ríkisútvarpið á að hafa forystu meðal fjölmiðla um vandað málfar. Ákvæði í þá veru eru reyndar lögbundin.

Við Ríkisútvarpið starfar málfarsráðunautur. Gefið var í skyn, að málfarsráðunautur væri ekkert ósáttur við enskusletturnar???  (,,Hún er ekkert á móti slettunum, þannig , sko”) Það var og.

 

MEIRA UM SLETTUR

Hér hafa oft verið gerðar athugasemdir við enskuslettuna Tax Free (skattfrjálst) sem mörg stórfyrirtæki keppast við að troða inn í málið. Þar er ekki verið að boða neitt skattfrelsi. Það eru ósannindi. Það er bara verið að auglýsa afslátt. Í Fréttablaðinu á föstudag (23.10.2015) voru þrjár heilsíðuauglýsingar þar sem slettan Tax Free var notuð , – í einni auglýsingu yfir hálfa síðu. Þetta voru auglýsingar frá Rúmfatalagernum, Hagkaupum og Ilvu. Leikfangaverslunin með enska heitinu ToysRus, má hinsvegar eiga það að hún auglýsti 25% afslátt, sem er langtum heiðarlegra. En í þeirri auglýsingu var einnig heil setning á ensku: It doesn´t get bigger than this. Hversvegna þarf að tala við okkur á ensku?

 

BARNAMÁLIÐ ENN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (23.10.2015) var sagt frá skartgriparáni í Hafnarfirði þar sem þjófarnir flúðu á bifreið. Svo var sagt: ,, .. en mennirnir klesstu á bifreið á flóttanum.” Þeir keyrðu á bifreið á flóttanum. Tveir voru að verki. Annar var handtekinn samdægurs, en seinni maðurinn eins og það var orðað var handtekinn daginn eftir. Að minnsta kosti tvær augljósar beygingarvillur voru í þessum sama fréttatíma. Það er eins og sé hálfgert ólag á verkstjórninni í Efstaleiti.

 

AÐ TREINA UPP !!!

Í firnalöngu viðtali við formann fjárlaganefndar í Fréttablaðinu (23.10.2015) er haft þingmanninum:,,Svo er þetta treinað upp á bloggsíðum og í kommentakerfum.”

Hvað á Framsóknarþingmaðurinn við? Hvað merkir þetta. Er þingmaðurinn kannski að reyna að sletta, nota orð úr tungumáli sem hún þekkir lítið til?

 

LAUSN VIÐ…

Í fyrirsögn í Fréttatímanum (23.-25.10.2015) segir: Fyrsta skrefið í átt að lausn við húsnæðisvandanum. Við tölum um lausn á einhverju. Ekki lausn við einhverju. Þess vegna hefði fyrirsögnin betur verið: Fyrsta skrefið í í átt að lausn á húsnæðisvandanum.

 

LIGGUR NIÐRI

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (23.10.2015) var sagt að tölvukerfi Reykjavíkurborgar lægi niðri. Þetta orðalag heyrist aftur og aftur. Tölvukerfið var bilað. Það var í lamasessi. Það var óvirkt. Þetta er hráþýðing úr ensku, the system is down. Það má alveg orða þetta á annan veg.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>