«

»

Molar um málfar og miðla 1820

 

EYÐING VAR FRAMKVÆMD

Molavin skrifaði :,, ,,Sú eyðing var framkvæmd…“ hefur Morgunblaðið (22.10.2015) orðrétt eftir framkvæmdastjóra Rekstrarfélags Stjórnarráðsins. Látum nú liggja milli hluta hversu rétt eða rangt það er, siðferðilega, að eyða afritum af opinberum tölvupóstum, sem geta skipt verulegu máli í stjórnsýslunni. Lög banna það reyndar. En nafnorðasýki smitast auðveldlega, t.d. úr ensku. Æ fleiri hrúga nafnorðum inn í málið þar sem þúsund ára venja er að nota sagnorð í íslenzku máli. Gögnum var eytt. Eyðing þeirra var ekki framkvæmd.” Hárrétt ábending. Kærar þakkir, Molavin.

 

Í LÍKINGU KRAFTAVERKS!

Þórður Sævar Jónsson sendi línu og þakkar fyrir Molaskrifin. Hann bendir á fyrirsögn á mbl.is og segir: ,,Sæll, Eiður. Rak augun í þessa fyrirsögn: Bati Odom í líkingu kraftaverks.
Sjá:http://www.mbl.is/sport/korfubolti/2015/10/20/bati_odom_i_likingu_kraftaverks/
Hann segir síðan:
,, Ég hefði haldið að „kraftaverki líkastur“ væri töluvert liprara.”

Það er hverju orði sannara, Þórður Sævar. Þakka bréfið.

 

HÚSNÆÐI Í FLEIRTÖLU

Fyrirsögn á mbl.is (22.10.2015): Fyrsta skrefið í átt að hagkvæmum húsnæðum. Síðan hvenær varð orðið húsnæði fleirtöluorð? Það er ekki til í fleirtölu. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=H%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0i

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/21/hagkvaemar_lausnir_i_husnaedismalum/

Hér hefur eitthvað skort á yfirlestur og gæðaeftirlit.

 

ÞEGAR ÚT AF BREGÐUR

Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 14 00 (21.10.2015) var sagt:,, Þar má engu út af bregða.” Þetta hljómar ekki rétt í eyrum Molaskrifara. Hefði átt að vera:,,Þar má ekkert út af bregða”, þar má ekkert mistakast.

 

SMYGL

Í inngangi að frétt um eiturlyfjasmygl á Stöð tvö (21.10.2015) las fréttaþulur:,,Kenningar eru uppi um að eitthvað af þessum efnum hafi átt að smygla vestur um haf”. Betra hefði verið: ,,Kenningar eru uppi um að einhverju (hluta þessara efna) af þessum efnum hafi átt…”

 

HEYRI EKKI BETUR,EN …

Molaskrifari heyrir ekki betur en búið sé að stytta hádegisfréttir Ríkisútvarpsins til þess að koma að auglýsingum. Sé þetta rétt þá er enn verið að skerða þjónustu fréttastofu Ríkisútvarpsins við almenning.

 

AF RÁS TVÖ

Í morgunútvarpi Rásar tvö (21.10.2015) var rætt við fyrrverandi fjármálaráðherra sem nefndi pólitískan andstæðing og sagði: ,, … hann Ásmundur litli Einar Daðason”. Ekki stækkaði þessi ummæli þann sem þetta mælti.

Í sama þætti sagði umsjónarmaður Virkra morgna: ,,Við ætlum að heyra í Sögu Garðarsdóttir…” . Kom svo sem ekkert á óvart.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>