«

»

Molar um málfar og miðla 1819

SAFNA METFÉ

Molavin skrifaði (20.10.2015):,, „Safna metfé á Kickstarter“ segir í fyrirsögn á Vísi (19.10.2015). Það sem reynt er að segja í fréttinni er að ungum mönnum hafi tekist að afla fjár til að fullgera uppfinningu sína. Eitt af einkennum svonefndra fréttabarna er að þau eru ófeimin að nota orð og hugtök, sem þau samt skilja hvorki né þekkja. Metfé, eins og áður hefur verið nefnt í þáttum þínum, er verðmætur hlutur; gripur í miklum metum.”  Molaskrifari þakkar bréfið. Og báðir vitum við Molavin, að sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Þess vegna þarf að hamra á þessu.

Sjá: http://www.visir.is/safna-metfe-a-kickstarter–islenskir-braedur-vilja-faera-almenningi-vindorku/article/2015151018770

 

ENN UM AÐ STÍGA TIL HLIÐAR

Rafn skrifaði (20.10.2015):,, Sæll Eiður.

Fyrir nokkru síðan varð fyrrverandi ráðherra á að stíga gæfulítið hliðarspor í starfi sínu fyrir sveitarstjórn á Suðurlandi.

Nú verður ekki annað séð, en ungir jafnaðarmenn hvetji hann til að endurtaka leikinn í núverandi starfi varaþingmanns, samanber meðfylgjandi frétt af vefmogga. A.m.k. verður að telja ólíklegt að menn séu að færa erlenda málvenju um hliðarspor yfir á íslenzku.”

Þakka bréfið, Rafn. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/19/tharf_ad_vinna_ser_inn_traust/

 

AFMÆLI Á NÆSTA ÁRI

Tönnlast er á því í Ríkissjónvarpinu þessa dagana, að Söngvakeppninin verði 30 ára á næsta ári, 2016. Boðuð eru hátíðahöld og fjárútlát af því tilefni hjá þessari síblönku stofnun.

En muna menn í Efstaleiti ekki, að á næsta ári er hálf öld frá því að Sjónvarpið tók til starfa 30. september 1966 ????

Kannski man enginn þar efra svo langt aftur.

 

AFMÁ MÖRKIN

Netmiðillinn dv.is gerir sitt til að afmá mörkin milli auglýsingaskrifa og ritstjórnarefnis. Samanber þetta hér: http://www.dv.is/lifsstill/2015/10/20/jepplingarnir-renna-ut-af-planinu/

Hvað skyldi vera greitt fyrir svona auglýsingu?

Þetta er slæm þróun.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>