ÓÍNÁANLEGUR
Ragnar Torfi skrifaði (19.10.2015): ,,Sæll Eiður.
Í frétt á Vísi er fjallað um hallarbyltingu í félagi múslima á Íslandi.
Ekki tókst að ná sambandi við Samann Tamimi vegna fréttarinnar.
Hann reyndist Óínáanlegur
Allaf lærir maður eitthvað nýtt.
Ef ég er alltað við símann og svara öllum, þá hlýt ég að vera Sí-í-náanlegur !”
http://www.visir.is/salmann-tamimi-oinaanlegur/article/2015151019125
Þakka ábendinguna, Ragnar Torfi. Þetta var undarlegt orðalag, – að ekki sé nú meira sagt.!
TILFELLI OG SJÓNMÁL DEILUNNAR
Í inngangi, yfirliti, kvöldfrétta í Ríkisútvarpinu á sunnudagskvöld (18.10.2015) var sagt: Engin lausn er í sjónmáli deilunnar. Deilan hefur ekkert sjónmál. Átt var við, að engin lausn væri í sjónmáli í deilunni, engin lausn í augsýn.
Í sama fréttayfirliti var sagt: Skoða þarf tilfelli sýrlenskrar fjölskyldu,sem synjað hefur verið … Greinileg áhrif frá ensku. Slæmt orðalag á íslensku. Betra hefði verið til dæmis: Skoða þarf aðstæður, skoða þarf stöðu, skoða þarf mál… Orðið tilfelli er þarna algjörlega út í hött.
FLEST ER NÚ FRÉTTNÆMT!
Úr frétt á mbl.is (18.10.2015): ,,Rétt fyrir kl. 5 í nótt var svo tilkynnt um líkamsárás í miðborginni. Þegar lögreglumenn komu á vettvang voru bæði gerandi og þolandi farnir af vettvangi, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu”. – Ja, hérna. Báðir farnir! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/18/tvaer_likamsarasir_i_reykjavik/
VANDRÆÐI
Úr frétt á visir.is (18.10.2015): “Við vorum í engum vandræðum með vélina …” Við vorum ekki í neinum vandræðum… Þetta er bara sýnishorn úr heldur vandræðalega skrifaðri frétt. Hér er hægt að lesa meira: http://www.visir.is/nadi-myndbandi-af-hreyfilshlifinni-hrynja-af/article/2015151018991
SÍÐASTI FÖSTUDAGUR OG FLEIRA
Reykvíkingur skrifaði (18.10.2015): ,,Ljúf þularrödd í dag, sunnudag, kynnti verk úr Pétri Gauti. Ég er vanur því, að þágufallið sé Pétri Gaut. Orð slípast og i fellur aftan af þágufalli. Barn segir með stráki, en venst síðan að segja með strák. Tónlistarmenn, eins og Árni Kristjánsson, kennari minn, sögðu í konsert, ekki í konserti.
Sami þulur sagði frá skipinu Títanik, bar fram tætanik. Sum erlend nöfn verða svo nærri okkur, að við íslenskum orðmyndina. Þannig fór fyrir löngu með skipið Títanik.” Molaskrifari þakkar bréfið,en efast um að allir taki undir ummælin um þágufallið. Hann hefði sagt úr Pétri Gauti.
,,Þá kynnti þulurinn efni og kvað það hafa verið flutt áður síðasta föstudag; það var flutt á föstudaginn var, á skandinavisku sist lördag og ensku last Friday. Þulir þurfa að temja sér þetta lipra orðalag um tíma á föstudaginn var og á föstudaginn kemur, það er svo oft þörf fyrir það í starfi þeirra.” Molaskrifari hefur margsinnis gert athugasemdir við orðalag eins og ,,síðasta föstudag”, ,,síðasta vor”, ,,síðasta vetur”, – en það er eins og enginn hlusti!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar