«

»

Molar um málfar og miðla 1817

SÓKN ÞÁGUFALLSINS – MÉRANIR

Í Molum (1813) var nýlega fjallað um sókn , eða ásókn þágufallsins í töluðu og rituðu máli. Nú hefur Helgi Haraldsson , prófessor emerítus í Osló sent Molaskrifara línu um þetta. Helgi segir: ,, Halldór heitinn Halldórsson kallaði þágufallsfylliríið méranir.

Sjá:

http://www.europeana.eu/portal/record/92012/BibliographicResource_2000081741163.html

Molaskrifari þakkar þessa ágætu ábendingu.

 

ENN UM SÖGNINA AÐ TENGJA

Fyrir nokkru var í Molum vikið að notkun sagnarinnar að tengja. Þá var hún notuð í merkingunni að skilja (Molar 1815). S.O. benti á eftirfarandi dæmi af visir.is (15.10.2015), – vitnað er í orð lögreglumanns: ,, „En við erum ekki að ná að tengja neitt sem er að segja okkur að þetta sé glæpur eða að hann hafi verið myrtur. Bráðabirgðakrufning sýnir ekki fram á að hann hafi verið beinbrotinn eða stunginn.“ Ekki vandað orðalag. Sjá: http://www.visir.is/koma-fjolskyldu-florians-til-islands-varpadi-frekara-ljosi-a-likfundarmalid-i-laxardal/article/2015151019427

 

FRÉTTATÍMAR OG AÐGENGI

Hversvegna eru ekki allir fréttatímar Ríkisútvarpsins aðgengilegir í Sarpinum á heimasíðu Ríkisútvarpsins? Eru einhver tæknileg vandkvæði á því? Um þetta hefur verið spurt áður.

 

Í KVÖLDI

Fyrir helgina var tekið svo til orða í dagskrárkynningu í Ríkisútvarpinu að hlýða mætti á sellóleikarann Yo Yo Ma í tónlistarkvöldi Ríkisútvarpsins. Er þetta nýtt orðalag, eða bara sakleysislegt mismæli? Við segjum ekki í kvöldi, – jafnvel þótt um útvarpsþátt sé að ræða.

 

AÐ HINDRA STRAUM

Í morgunfréttum árla dags (16.10.2015) í Ríkisútvarpinu var talað um að hindra flóttamannastraum frá Tyrklandi til ESB. Hefði ekki verið eðlilegra að tala um að draga úr flóttamannastraumi, minnka flóttamannastraum, stöðva flóttamannastraum? Þetta orðalag var reyndar notað í fleiri en einum fréttatíma. Á vefsíðu Ríkisútvarpsins var talað um að hafa stjórn á straumi flóttamanna og í hádegisfréttum var þrívegis talað um að hindra straum flóttamanna, sem er ekki gott orðalag að mati Molaskrifara. Einu sinni var talað um að hafa stjórn á straumi flóttamanna. Það er prýðilega að orði komist.

 

TVENNAR SKYRTUR

Veldu tvennar skyrtur, sagði fyrirtækið Dressmann í sjónvarpsauglýsingu (16.10.2015). Þetta er ekki rétt. Skyrta er eintöluorð. Veldu tvær skyrtur. Á jólunum fékk hann tvennar buxur , tvær skyrtur og tvö sokkapör.

 

AÐ HAFA VIT Á

Í verkfallsfréttum Ríkissjónvarps ( fremur en útvarps,15.10.2015) var talað um lokun vínbúða og þá sem höfðu ekki vit á að birgja sig upp af áfengi fyrir helgina. Það var og. Ýmsir hafa sjálfsagt verið svo vitlausir að gera það ekki. Voru annars ekki allar vínbúðir opnar á laugardaginn? Sá ekki betur en það væri rækilega auglýst.

 

STEIG TIL HLIÐAR

Enn einu sinni er sagt um mann sem hættir, – hættir að gegna tilteknu starfi eða embætti, að hann hafi stigið til hliðar (e. step aside). Mér finnst þetta orðalag alltaf út í hött: ,,Eft­ir að John Boehner steig til hliðar sem for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings í síðasta mánuði …” mbl.is (17.10.2015)

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/10/17/fordast_forsetann_eins_og_pestina/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>