«

»

Molar um málfar og miðla 1823

AF OG FRÁ

Bílnum stolið af Íslandsmeistara, sagði í fyrirsögn á mbl.is (26.10.2015). http://www.mbl.is/sport/efstadeild/2015/10/26/bilnum_stolid_af_islandsmeistara_3/

Miðað við þolmyndarmisnotkun margra fréttaskrifara mætti í fyrstu ætla að Íslandsmeistari hafi stolið bíl. Svo var reyndar ekki. Bíl var stolið frá Íslandsmeistara. Ekki af Íslandsmeistara. Nema hann hafi verið með bílinn á sér.

 

ÞREKVIRKI

Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps (25.10.2015) var sagt að ungafólkið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins ,,hefði sýnt þrekvirki”. Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki áður heyrt. Væntanlega var átt við að unga fólkið hefði unnið þrekvirki.

 

ELLA

Um síðustu helgi flutti sænska ríkissjónvarpið SVT tveggja tíma dagskrá með söngkonunni Ellu Fitzgerald. Þetta voru upptökur frá þrennum tónleikum Ellu, – efni sem aldrei áður hafði verið sýnt í Svíþjóð. Þessar upptökur fundust nýlega rykfallnar í myndasafni BBC. Molaskrifari hefur hlýtt á Ellu Fitzgerald synja mörg lög, en þarna flutti hún perlur, sem hann hafði ekki áður heyrt.

Skyldu íslenskir sjónvarpshorfendur fá að sjá þetta úrvalsefni? Dagskrárstjórar í Efstaleiti hljóta að hafa heyrt um Ellu Fitzgerald.

 

FÓTUR OG FIT

,,Uppi varð mikill fótur og fit, þegar borgarstjórn samþykkti tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur fráfarandi …”. Svona tók fréttamaður til orða í fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld (26.10.2015). Rétt hefði verið: Uppi varð fótur og fit, þegar … –,, Æsingur og órói kemur upp á yfirborðið (vega e-s óvænts) , rót kemst á, fyrirgangur hefst”. Sjá: Mergur málsins, íslensk orðatiltæki, eftir Jón G. Friðjónsson , bls. 226. Fréttaskrifarar mættu að skaðlausu líta oftar í þá ágætu bók.

 

 

 

NORÐURLANDARÁÐSÞING

Þing Norðurlandaráðs fer fram í Hörpu þessa dagana. Enn kemur í ljós hversu frábært hús Harpa er og til margra hluta nytsamlegt. Í gærkveldi (27.10.2015) fór fram verðlaunaveiting þar sem íslenska kvikmyndin FÚSI hreppti kvikmyndaverðlaunin. Er þetta annað árið í röð, sem okkur hlotnast kvikmyndaverðlaunin. Það er sannarlega ánægjulegt.

Í seinni fréttum sjónvarps var bein útsending frá Hörpu. Fréttamaður sagði okkur, að með þessari verðlaunaafhendingu lyki þingi Norðurlandaráðs. Það er nú aldeilis ekki þannig.

Þingi Norðurlandaráðs lýkur ekki fyrr en undir hádegið á fimmtudag (29.10.2015).

Alltaf geta orðið mistök, en þá er bara að leiðrétta. Þessi missögn var ekki leiðrétt í fréttum sjónvarpsins og var þó nægur tími til. Annaðhvort var enginn að hlusta, eða enginn vissi betur. Stundum finnst manni að tregða ríki hjá fréttastofunni, þegar kemur að því að leiðrétta það sem rangt hefur verið farið með í fréttum. Það er heiðarlegt að viðurkenna mistök, en það rýrir álit fréttastofunnar, þegar það er látið ógert.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>