«

»

Molar um málfar og miðla 1845

BROTLENDING

Skúli Brynjólfur Steinþórsson, sem lengi var flugstjóri hjá Loftleiðum, Flugleiðum og Icelandair, sendi Molum eftirfarandi bréf (24.11.2015):

,,Heill og sæll,
ég hefi tekið eftir því að þegar sumir fjölmiðlar fjalla um það, þegar Germanwings flugvélin fórst í Ölpunum, þá tala þeir um að hún hafi brotlent. Flugvélinni var viljandi flogið inn í fjallshlíð þannig að hún splundraðist. Það er ekki brotlending. Brotlending er þegar loftfar brotnar í lendingu. Það er talað um brotlendingarþol (crashworthiness), sem er sá eiginleiki loftfars að burðarvirki þess standist slys og óhöpp þannig að þeim sem í því eru verði sem minnst mein af.

– – Nú sá ég í fréttum að rússneska flugvélin, sem var skotin niður hafi brotlent eftir að hún var skotin niður og flugmennirnir höfðu skotið sér út í fallhlífum, skrítin brotlending það”. Skúli Brynjólfur bætti svo við:,, Það væri kannske ágætt að benda þeim sem eru að fjalla um flugmál á Flugorðasafn Íslenskrar málnefndar. Þar man ég að vísu eftir einni breytingu, við breyttum flugrita (flight recorder) í ferðrita sem innifelur þá bæði flugrita (flight data recorder) og hljóðrita (voice recorder)” – Þeirri ábendingu er hér með komið á framfæri. Molaskrifari veit, að bréfritari hefur verið ötull orðasmiður á þessum vettvangi.

Molaskrifari þakkar Skúla Brynjólfi þetta ágæta bréf og þarfar ábendingar.

 

AÐ VINNA HJARTA

Þ.G. vakti athygli á þessari frétt á dv.is (25.11.2015): http://www.dv.is/frettir/2015/11/25/svidsetti-eigid-mannran-til-ad-vinna-hjarta-fyrrverandi-kaerasta/

,,Sæll Eiður, þakka þér þína þrotlausu vinnu. Ég rakst á greinina hér að ofan en í henni kemur í þrígang fram að konan reyndi að vinna hjarta síns fyrrverandi maka. Þykir mér það fremur undarlegt happadrætti.
Færi ekki betur á að segja hana hafa reynt að vinna ást hans á nýjan leik, jafnvel vekja hrifningu aftur?”. Kærar þakkir, Þ.G. Sammála þér.
 

RYÐGAÐUR – RYKAÐUR

Í Víkverjapistli Morgunlaðsins (24.11.2015) , segir Víkverji: ,,Daginn eftir þessa skemmtum var Víkverji í ryðgaðri kantinum…”. Og: ,, í ljósi þess að Víkverji var ryðgaður …” Molaskrifari hefur aldrei heyrt orðið ryðgaður í annarri merkingu en um járn, sem er þakið ryði, ryðgað, ryðétið, jafnvel ryðbrunnið. Það skyldi þó ekki vera að ágætur Víkverji hafi verið rykaður. Orðabókin segir ,að það að vera rykaður , sé að vera slæptur eftir áfengisdrykkju eða enn undir áhrifum daginn eftir drykkju. Segi bara svona!

 

MYNSTRUÐ AUGU

Sigurður E. Sigurðsson skrifaði (25.11.2015) : http://www.eyesland.is/Annad/

Ofnæmisprófaðir leppar fyrir augu með bangsamynstri.

,,Sæll Eiður.

Ofanskráða auglýsingu( sem ég tel hreina hrákasmíð) getur að líta á heimasíðu eyesland.is. Mér finnst þetta vera metnaðarleysi virts fyrirtækis að bjóða uppá slíkt, að maður tali nú ekki um auglýsingastofuna og þann sem markaðssetur vöruna.

Hvert er þitt álit?” Þakka bréfið, Sigurður. Mér finnst þetta ekki vel orðað. Hér hefði þurft að vanda betur til verka.

 

ER ÞÖRF Á …?

,,Er þörf á að lögreglan vopnavæðist?” Eitthvað á þessa leið spurði fréttamaður Ríkisútvarpsins á fimmtudagskvöld (26.11.2015) . Lögreglan í Reykjavík/á höfuðborgarsvæðinu/ hefur haft aðgang að skotvopnum, meira að segja vélbyssum ,(verið vopnavædd, eins og fréttamaður orðaði það) alveg síðan á fjórða áratug síðustu aldar, – ef ekki lengur. Örugglega í meira en 75  ár.  Fréttamenn þurfa helst að vita aðeins meira en það sem gerðist í gær.

 

HLÉ

Verður nú stundarhlé á molaskrifum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>