ÓVÖNDUÐ SKRIF
Sigurður Sigurðarson sendi skrifara þessar línur á þriðjudaginn (24.11.2015): Sæll,
Mikið óskaplega er vefritið Pressan oft illa skrifað. Hvernig má skilja eftirfarandi fyrirsögn: „Hvers vegna lék Belgía svo stórt hlutverk í hryðjuverkunum í París?“ Því er til að svara að Belgía lék ekkert hlutverk í þeim atburðum. Landið kom hins vegar við sögu og þá sérstaklega höfuðborgin. Fyrirsögnin er hreinlega heimskuleg, bæði röklega sé og málfræðilega.
Öll greinin er afar illa skrifuð. Hér eru nokkur dæmi um rugl og bull:Þetta er heldur ekki eina hryðjuverkið í Evrópu sem hefur haft þræði til Belgíu …
- Belgía er klofið ríki í vissum skilningi …
- Belgía skiptist í þrjá hluta þar sem mismunandi tungumál eru töluð.
- Þetta orsakar ákveðna þröskulda tungumálalega séð.
- Þá hafa héraðsstjórnir landsins mikið sjálfstæði og það hefur á mörgum sviðum valdið skrifræðisöngþveiti
- Hann benti á að þegar fólk gagnrýni að þegar sex lögreglulið starfi í Brussel, með sína 1,2 milljónir íbúa, þá detti fólki ekki í hug að þessi lögreglulið sinni ekki vörnum gegn hryðjuverkum
- Héraðsstjórninar hafa verið seinar að taka við sér að viðurkenna að vandinn væri til staðar …
- Mikið atvinnuleysi, fátækt og margir útlendingar hafa í sameiningu myndað góð skilyrði …
- Ekki má gleyma að staðsetning Belgíu er góð fyrir þá sem hyggja á ódæðisverk í Evrópu.
Molaskrifari þakkar Sigurði þarfar ábendingar. Vonandi les pressuskrifarinn þessar línur.
VILLUR Í AUGLÝSINU
Molalesandi sendi eftirfarandi (25.11.2015): ,,Hér er merkileg auglýsing frá Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem stór bókstafur er notaður til auðkenningar en ekki skv. stafsetningarreglum. Hér eru fjórar villur, ekki færr1. Og mörg dæmin eru verri. “
https://starf.or.is/or/ViewJobOnWeb.aspx?jobid=913
Þetta er auglýsingin:
,,Mannauðsráðgjafi
Hefur þú einlægan áhuga á að virkja og stuðla að vexti fólks í starfi?
Við leitum að jákvæðum og kraftmiklum félaga í létt og faglegt teymi mannauðssérfræðinga í Starfsmannamálum Orkuveitu Reykjavíkur. í sameiningu sjáum við til þess að starfsmannastefna OR samstæðunnar sé virk og unnið sé markvisst eftir þeim Lykiláherslum sem við höfum sett okkur til að stuðla að því að OR samstæðan sé eftirsóknarverður vinnustaður. Megináherslur starfsins eru starfsþróunar- og fræðslumál ásamt mannauðsráðgjöf fyrir ákveðin fyrirtæki OR samstæðunnar sem eru Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og OR.”
ENN UM AÐ OG AF
Æ oftar sér maður svona rugling (mbl.is 25.11.2015): ,,Einn var um borð og komst hann að sjálfsdáðum í björgunarbát”. Af sjálfsdáðum,hefði þetta átt að vera, af eigin rammleik.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/25/bat_ur_inn_hrein_lega_skidlogadi/
VÍUR
Vía, flt. víur, eru maðkafluguegg í fiski eða kjöti. Að bera víurnar í eitthvað eða einhvern , er að sækjast eftir einhverju eða einhverjum, manga til við, reyna að krækja í stúlku/pilt, sjá Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson bls. 961. Þulur í Kastljósi (24.11.2015) notaði þetta orðtak ekki rétt, þegar hann talaði um að bera í víurnar við indverska kvikmyndagerðarmenn. Rétt hefði verið að tala um að bera víurnar í indverska kvikmyndagerðarmenn, sækjast eftir að fá indverska kvikmyndagerðarmenn til að gera kvikmyndir á Íslandi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar