«

»

Molar um málfar og miðla 1843

 

ÚTSÖLU FÖSTUDAGUR

Molaskrifara fannst það heldur óskemmtileg sending, sem hann fékk frá raftækjasalanum ELKO (sem hann hefur átt ágæt viðskipti við) á mánudagsmorgun (23.11.2015). Þá var borið heim til hans, eins og sjálfsagt velflestra á höfuðborgarsvæðinu, auglýsingablað um stórútsölu. Látum það nú vera, þótt ruslpóstur sé annars heldur hvimleiður. En fyrirsögnin með heimsstyrjaldarletri á forsíðu og baksíðu auglýsingablaðsins var á ensku, – BLACK FRIDAY. Hvers vegna þarf Elko að ávarpa okkur á ensku? Það er töluð íslenska á höfuðborgarsvæðinu, ekki satt. Enn þá að minnsta kosti. Hvers vegna  er verið að apa einhvern útsölusið eftir Ameríkönum? – Þar kalla menn föstudaginn eftir Þakkargjörðarhátíðina,  Thanksgiving,svartan föstudag, Black Friday. Þá eru stórútsölur og allt verður vitlaust í verslunum og stórmörkuðum vestra. Hvers vegna þarf Elko að sletta á okkur ensku? Sölumenn og auglýsingastofur sletta næstum daglega á okkur ensku orðunum TAX FREE, skattfrjálst, sem þar að auki er  ósönn fullyrðing. Þar er bara verið að auglýsa afslátt. – Þeir sem bera ábyrgð á því að troða þessum slettum inn í tungumálið, auglýsingastofur og sölumenn, verðskulda einskonar skammarverðlaun tungunnar. Getum við ekki tekið höndum saman gegn þessari árans óværu? Þetta eru málspjöll.

 

AÐ BERA GÆFU TIL

Úr leiðara Kjarnans (23.11.2015):

,,Vonandi ber Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, gæfa til þess að standa vörð um RÚV og menningarlegt hlutverk þess.” Þetta ætti með réttu að vera: , Vonandi ber Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra gæfu til þess að …”

 

VONDUR GRAUTUR

Þáttaheitið Voice Ísland hjá Skjá einum er vondur grautur af íslensku og ensku. Ekki til fyrir myndar. Hversvegna ekki Rödd Íslands ?

 

ÓLJÓS MERKING

Úr erlendri frétt á mbl.is (22.11.2015): ,, Le Dri­an sagði að átök­in gegn jí­hadist­un­um færu fram bæði í skugga og á stríðsvell­in­um.”. Hvað á skrifari við? Átök í skugga? Skugga hvers? Kannski er hér verið að reyna að segja okkur á átökin farið fram bæði með leynd og á vígvellinum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>