VINDMYLLUR OG USLI
Molaskrifari hnaut um undarlegt orðalag í kvöldfréttum Ríkisútvarps (13.12.2015). Það gerðu fleiri. Ragnar Önundarson skrifaði skömmu eftir fréttir á fésbók: ,, Ban-ki-moon hefur lengi „barist við vindmyllur“ í loftslagsmálum og ummæli Donalds Trumps um múslima „hafa valdið miklum usla“ sagði í kvöldfréttum RÚV rétt áðan. Sennilega hefur verið ætlunin að segja að frkstj. SÞ hafi talað fyrir daufum eyrum og að ummæli frambjóðandans hafi valdið miklu uppnámi. Verðum við ekki að gera kröfur um gæði í málfari og málskilningi fréttamanna ?” – Hverju orði sannara, Ragnar. Gæðaeftirlit , yfirlestur, þess sem birta skal virðist yfirleitt ekki til staðar á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er miður. Breyting frá því sem áður var.
VINDHRAÐI
,,Vindhraði á hægri niðurleið”. Svona hljóðaði fyrirsögn á mbl.is í byrjun þessa mánaðar (02.12.2015). Stofnanamál. Það fór hægt lygnandi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/02/vindhradi_a_haegri_nidurleid/
Sama dag var á sama miðli vitnað í forstjóra álversins í Straumsvík og sagt: ,, … að sögn Rannveigar Ristar”. Molaskrifari játar að hann hefur ekki fyrr heyrt þetta eignarfall ættarnafnsins Rist. Leitarvél sýndi fleiri dæmi.
ELLIÐAÁ
Af mbl.is ( 04.12.2015): ,, Snjóþyngsli undanfarinna daga hafa orðið til þess að starfsmenn Reykjavíkurborgar eru byrjaðir að fjarlægja snjó af götum og flytja hann út í flæðarmálið þar sem Elliðaá rennur út í sjó.” Þar sem Elliðaárnar …. hefði þetta átt að vera. Ekki Elliðaá. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/04/blasa_snjonum_burt/
Það er nauðsynlegt, að þeir sem skrifa fréttir, kunni skil á helstu örnefnum í nærumhverfinu ( að minnsta kosti) og fari rétt með þau.
Sama dag var sagt í fyrirsögn á vefmiðlunum visir.is sagt að Búið væri að opna Hafnarfjall. Það var búið að opna, ryðja veginn undir Hafnarfjalli eða fyrir Hafnarfjall. http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=2015151209253
ATÓMSTÖÐIN
Það rann upp fyrir Molaskrifara að hann hafði á sínum tíma misst af kvikmyndinni Atómstöðinni eftir bók Halldórs Laxness. Horfði á hana í tímaflakki Sjónvarpi Símans (14.12.2015) . Ótrúlega vel gerð og vönduð mynd. Unun að horfa snilldarleikara okkar unga, sem aldna. Myndin ber aldurinn meira en vel. Hún er hreint ekki barn síns tíma, eins og stundum er sagt um gamlar myndir. Hún er stórfín í alla staði. Takk, þið sem hana gerðuð og takk Ríkissjónvarp.
GOTT VIÐTAL
Í morgunþætti Rásar tvö (14.12.2015) var prýðilegt viðtal við Auði H. Ingólfsdóttur, alþjóðastjórnmálafræðing, um næsta óvæntar og giftusamlegar lyktir loftslagsráðstefnunnar í París. Hún nefndi dr. Halldór Þorgeirsson til sögunnar. Molaskrifari hefur ekki heyrt Halldórs getið fyrr í fréttum af niðurstöðum ráðstefnunnar , né að við hann hafi verið rætt. Má þó vera að það hafi farið framhjá honum. Rámar þó í viðtal (í Speglinum?) áður en ráðstefnan í París hófst. Þekkjandi nokkuð til þessara mála og hafandi starfað með Halldóri og í námunda við hann er Molaskrifari sannfærður um að hann hefur verið einn af lykilmönnunum, sem stýrðu þessu máli til farsællar lausnar. Halldór er einn af æðstu yfirmönnum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Starfsheiti hans þar er á ensku Director for Implementation Strategy, kannski mætti þýða það yfirmaður framkvæmdar stefnumótunar, ógóð hráþýðing. Halldór hefur yfirburðaþekkingu á loftslagsmálum, er flinkur samingamaður og frábær fundastjórnandi. Þarna gegndi Íslendingur mikilvægu hlutverki, þótt ekki hafi það farið hátt.
Ágæt umræða um ráðstefnuna í Kastljósi gærkvöldsins (14.12.2015). Þorvaldur sendi Molaskrifara þessar línur eftir Kastljósið:,, Var að hlusta á Kastljós þar sem Helgi Seljan ræddi loftslagsmál við þrjá einstaklinga. Einn þeirra sagði að nú þyrftu menn að bretta upp hendur í þessum málum. Einhvern tíma hefði verið talið hættuminna heilsu manna að bretta upp ermar.” Þakka ábendinguna , Þorvaldur. þetta mismæli heyrði Molaskrifari hinsvegar ekki. ekki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar