«

»

Molar um málfar og miðla 1849

SVIKULT SKOT

Af fréttavefnum visir. is (08.12.2015): ,,Það þýðir að við munum sjá hvar vélin var þegar hún var skotin hin ( svo!) og hvenær hið svikula skot tyrkneska flughersins hæfði þotuna …“ Hið svikula skot.? Svikull þýðir, segir orðabókin, ótrúr, ótraustur. Merking orðsins hefur sennilega ekki verið skrifaranum alveg ljós. Sjá: http://www.visir.is/segir-flugritann-leida-sannleikann-i-ljos/article/2015151208617

 

VÍÆPÍ HUMAR

Hvað er þessi víæpí humar, sem alltaf er verið að tönnlast á í auglýsingum í útvarpinu. Enska skammstöfunin VIP= Very Important Person, mjög mikilvægur einstaklingur. Gildir það um humar?  Eftirfarandi texti er auglýsing um fyrirbærið á fésbók (14.12.2015): ,,Nú gefum við VIP Jóla Humar!Sendu okkur uppáhalds humar uppskriftina þína hingað undir þennan þráð, deildu henni og þú ert þar með komin í pottinn”. Molaskrifara finnst þetta eiginlega hálfgert bull, – er það ekki humarinn,sem á að fara í pottinn eða á pönnuna?

 

ÞEGAR ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ BIRTA TIL

Af mbl.is (06.12.2105) úr frétt um ferðamennsku á hálendinu:,, Íslend­ing­ar fari frek­ar í apríl og maí þegar það er búið að birta til og veðrið sé betra.”  Hér hefði farið betur á því að segja til dæmis, þegar dagsbirtu nýtur lengur, eða þegar dag er tekið að lengja svo um munar.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/06/hafa_ekki_nad_sambandi_vid_franska_ferdamenn/

 

LESNAR AUGLÝSINGAR

Hér hefur stundum verið drepið á leiknu, aðfengnu, auglýsingarnar ,sem ný yfirstjórn innleiddi í Ríkisútvarpinu. Þær eru sumar hverjar ágengar og groddalegar. Nú hafa bæst við leiknar, lesnar auglýsingar, sem eru beinlínis illa lesnar, þannig að hörmung er á að hlýða. Finnst auglýsingadeild þetta ekkert athugavert? Er enn tekið við öllu? Engin gagnrýni?

 

HNÚTAR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.12.2015) var talað um nýjan bát, sem náð gæti allt að 27 hnútna hraða. Þarna hefði átt að tala um 27 hnúta hraða. Sjá vef Árnastofnunar, vef sem fréttamenn ættu að nota, þegar þeir eru óvissir um beygingu íslenskra orða. http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=5916

Annars er venjulegra að tala um sjómílur en hnúta, þegar talað er um siglingarhraða. Sjá: https://is.wikipedia.org/wiki/Sj%C3%B3m%C3%ADla

 

LEIÐRÉTTING

Í Molum gærdagsins (1848) var vitnað í fréttir Stöðvar tvö fyrr í vikunni þar sem fjallað um nýjustu Star Wars kvikmyndina og gauraganginn í kring um hana. Þar var sagt: ,,Í sama fréttatíma var talað um það sem kalla mætti Star Wars æði. Þá sagði fréttamaður: ,, …. foreldrar eru áhugasamir um að kynna börn sín þessu fyrirkomulagi”. Eðlilegra og betra hefði að tala um að kynna þetta fyrirkomulag fyrir börnum sínum.”  – Rétt  skal vera rétt. Molaskrifara hefur verið bent á, að það var ekki fréttamaðurinn, sem sagði þetta, heldur viðmælandi hans og er sá fréttamaður sem í hlut átti beðinn velvirðingar á þessu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>