«

»

Molar um málfar og miðla 1853

ENN UM HLUSTUN

Þórhallur Jósepsson skrifaði (22.12.2015): ,,Sæll Eiður.
Ég verð að játa að ég varð undrandi að sjá að þið langvinir, þú og Molavin, urðuð undrandi á þessu sem hér segir frá í Molum 1852:
„UNDARLEG HLUSTUN
Molavin skrifaði (21.12.2015): „Vísir heyrði ofan í þennan unga mann, sem býr á Suðurlandinu og er rétt liðlega tvítugur.“ Svo skrifar blaðamaðurinn Jakob Bjarnar á Vísi 21.12.2015. Það er erfitt að ímynda sér hvernig sú hlustun hefur farið fram!“
,,Undrun mín skýrist af því ,að fyrir mér er þetta orðatiltæki “ … að heyra ofaní …“ alvanalegt og eðlilegt frá því ég man eftir mér. Ég skal skýra nánar. Þegar leita þurfti álits einhvers eða forvitnast um skoðun viðkomandi á einhverju máli, en í einrúmi og alls ekki í heyranda hljóði, var oft talað um að heyra ofaní viðkomandi. „Ég þarf að heyra ofaní hann um þetta …“ eða „ég heyrði ofaní hana um það …“ Þegar maður „heyrir ofaní“ einhvern er það jafnan til þess að geta tekið tillit til álits viðkomandi eða til að fá rétta frásögn um eitthvað persónulegt sem ekki skyldi hátt fara.
Semsagt, fyrir mér er þetta aldeilis ekki ókunnuglegt orðfæri. Bestu jólakveðjur, Þórhallur Jósepsson.

Molaskrifari þakkar Þórhalli bréfið. Hann játar, að honum er þetta orðtak framandi. Hnaut um það. Eins og Molavin. Kannski er þetta landshlutabundið? Hvað segja lesendur?

 

AÐVENTUTÓNLEIKAR

Það var prýðilega til fundið hjá Ríkissjónvarpinu á sýna okkur aðventutónleika frá Vínarborg á mánudagskvöld (21.12.2015). Skipti engu þótt tónleikarnir væru frá 2013. Þetta er sígilt efni. En hversvegna í ósköpunum var þetta öndvegisefni á dagskrá klukkan 23 00 , – eða undir miðnætti? Hefði átt að vera fyrr um kvöldið.

 

FLEIRI ÞÚSUND

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (22.12.2015) var sagt frá gagnslausum hrukkukremum sem sum hver kostuðu fleiri þúsund krónur. Fleiri en hvað? Hér hefði átt að tala um mörg þúsund. Ekki fleiri þúsund.

 

 

AÐ KOMAST Á FÆTUR

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (21.12.2015) var talað um breytingu á klukkunni, seinkun klukkunnar. Ekki heyrði Molaskrifari betur en sagt væri um flutningsmann þingmáls um þetta efni að honum væri sérstaklega umhugað um ungt fólk sem ætti mikið undir því að komast á fætur. Eigum við ekki öll mikið undir því? Hefði haldið það.

 

ÍÞRÓTTIR

Íþróttir fá mikið pláss í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Algjör óþarfi að vera með langa umfjöllun um fótbolta í Kastljósi eins og var á mánudagskvöld (21.12.2015). Kastljós á að vera beittur fréttaskýringaþáttur, – eins og það lang oftast er.

 

ERLENDIS

Í Spegli Ríkisútvarpsins (22.12.2015) var hvað eftir annað talað um að flytja erlendis. Stundum heyrist líka talað um að fara erlendis. Þetta er ekki í samræmi við hefðbundna málnotkun. Orðið erlendis er notað um dvöl í öðrum löndum. Hann bjó erlendis. Hann var erlendis, þegar Hekla gaus. Við förum til útlanda. Við förum ekki erlendis. Þegar við erum komin til útlanda erum við erlendis. Orðabókin segir !? að fara erlendis, ekki gott mál í venjulegu samhengi.

 

Verður nú stundarhlé á Molaskrifum.

Molaskrifari óskar lesendum þessara lína gleðilegrar jólahátíðar. – ESG

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Að heyra ofan í einhvern var alvanalegt í minni sveit; Skagafirðinum, ef kanna þurfti eitthvað í hljóði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>