«

»

Molar um málfar og miðla 1858

LJÁ – LÉÐI – VEKJA MÁLS Á

Helgi Haraldsson , prófessor emerítus í Osló, vakti athygli á eftirfarandi (31.12.2015) í þeim ágæta miðli Stundinni

http://stundin.is/pistill/flottinn-fra-sigmundi-david/

„Þingmaður Framsóknar­flokksins, Þorsteinn Sæmundsson, ljáði máls á vandan­um fyrir ári síðan.“

Þakka ábendinguna, Helgi. Auðvitað ljá menn ekki máls á vanda. Að vekja máls á e-u er að minnast á e-ð að fyrra bragði. Þingmaðurinn vakti máls á þessum vanda. Hér má svo til fróðleiks sjá beygingu sagnarinnar að ljá á vef Árnastofnunar. http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=463904

 

VANDRÆÐAGANGUR

Af visir.is (30.12.2015): ,, Fyrsta breytingin sem gerð var á ríkisstjórninni var þó ekki tengd þessari stöðu, heldur hrökklaðist Hanna Birna Kristjánsdóttir úr ríkisstjórn eftir margra mánaða vandræðaganga vegna lekamálsins svo kallaða hinn 4. desember á síðasta ári”. Orðið vandræðagangur er ekki til í fleirtölu. Það hefur hins vegar verið hálfgerður vandræðagangur á þeim sem skrifaði þessa frétt.

 

REKA – REKJA

Ekki heyrði Molaskrifari betur en þul á Rás eitt yrði það á á miðvikudagskvöld (30.12.2015) að rugla saman sögnunum að reka og rekja. Þetta var að loknum þættinum ,,Eg las það í Samúel”. Saga er rakin, ekki rekin. Heyrðist þulur segja, – sem rekið hefur sögu. Sem rakið hefur sögu. Gat ekki sannreynt þetta á netinu, en heyrði ekki betur. Afar sjaldgæft að hnökrar séu á málfari þula á Rás eitt.

 

TENINGUR

Í fréttum Ríkissjónvarps á gamlársdag (31.12.2015) var sagt: ,, Það sama verður uppi á teningunum í fleiri borgum á meginlandinu og …”. Málvenja er í þessu orðasambandi að hafa orðið teningur í eintölu. Þetta hefði því átt að vera: ,, Það sama verður uppi á teningnum … “. Staðan verður sú sama, ástandið verður það sama .

 

 

HRINGBRAUT – EYSTRA ELDHRAUN

Hringbraut er að festa sig í sessi sem fjölmiðill. Daginn fyrir gamlársdag (30.12.2015) horfði skrifari þar á prýðilega heimildamynd um Ferðafélagsgöngu um Eystra Eldhraun. Þar sem þau Páll Ásgeir Ásgeirson og Rósa Sigrún Jónsdóttir voru leiðsögumenn, en kvikmyndataka í höndum Péturs Steingrímssonar. Þetta var vel gerð mynd, vel tekin og fróðleg, – margt var þarna hnýsilegt að sjá. Og ekki spilltu tilvitnanir í eldklerkinn fyrir. Hægt er að gera góðar heimildamyndir án þess að til þess sé kostað milljónum. Þessi mynd sannar það. Á sjónvarpsstöðinni N4 er sömuleiðis margt gott að finna, – bitastætt efni er líka stundum á ÍNN, ekki síst þættir Björns Bjarnasonar. Annars skemmir ofstæki og óheflað orðbragð sjónvarpsstjórans of oft fyrir á þeirri stöð.

 

ÓVANDVIRKNI

Þess hefur stundum verið getið hér, að auglýsingastofa Ríkisútvarpsins vinnur sín verk stundum ekki nógu vandlega. Það kom til dæmis í ljós við lestur auglýsinga fyrir tíu fréttir að morgni nýársdags. Þá hafði þulur fengið í hendur gamla auglýsingatexta, sem ekki áttu við á nýbyrjuðu ári. Anna Sigríður Einarsdóttir þulur leiðrétti þetta lipurlega, – eins og hennar var von og vísa.

 

ÁRAMÓTAMYNDSKEIÐIÐ

Áramótamyndskeið Ríkissjónvarpsins á miðnætti á gamlárskvöld, þegar 2015 kvaddi og 2016 heilsaði, var fallegt og smekklega saman sett.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>