«

»

Molar um málfar og miðla 1857

 

GLEÐILEGT ÁR, GÓÐU MOLAVINIR !

 Verður nú tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið á nýliðnu ári.

 

GERAST FYRIR – KOMA FYRIR

Þórarinn Guðnason, málglöggur og dyggur Molalesandi, skrifaði (30.12.2015):

,,Fréttabörnin láta að sér kveða eins og fyrri daginn.

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar á visir.is í gær 29. des. og vitnar í fyrrverandi ritstjóra Mbl., Styrmi Gunnarsson, í þætti um Jennu Jensdóttur:

Þá segir Styrmir að mörg þeirra vandamála sem samfélagið glímir við í dag megi rekja til þess sem gerist fyrir börn í æsku„.

Þetta segir Styrmir náttúrulega alls ekki í klippunni úr þættinum, sem fylgir fréttinni

Hann segir þar, skýrt og greinilega: „..sem kemur fyrir börn„.

Ekki vönduð vinnubrögð fréttamanns.” – Þakka ábendinguna, Þórarinn. Rétt. Þetta hefði Styrmir Gunnarsson aldrei sagt. Fréttamaður hefði þurft að vanda sig. Það eiga fréttamenn raunar alltaf að gera.

 

SAGNBEYGINGAR

Molalesandi skrifaði vegna ábendingar í Molum nýlega: (30.12.2015) „Það er ekki nýtt að menn segi ‚réði‘ í framsöguhætti þátíðar líkt og í viðtengingarhætti sömu tíðar. Íslensk orðabók Eddu kannast að vísu við þann talshátt en auðkennir hann með upphrópunarmerki og spurningarmerki. Ritstjóri bókarinnar er því ekki sáttur við að svo sé tekið til orða. Svo er mál með vexti að önnur kennimynd sterkra sagna (1.p.et.fh.þt.) er alltaf eitt atkvæði ef sögn sem er ekki forskeytt á í hlut. Á þessu er bara ein undantekning, valda, sem er í þátíð ‚olli‘. Því ber að segja: „Hvað réð ákvörðuninni?“ og „Hún réðst til atlögu.“ Öðru máli gegnir um viðtengingarháttinn: „Hann réði sér ekki fyrir kæti ef frændi hans kæmi í heimsókn.“ „Hún óttaðist að herinn réðist til atlögu í birtingu.““ – Molaskrifari þakkar bréfið.

 

NÝLUNDA?

Molaskrifari hefur ekki verið iðinn útvarpshlustandi á nýársnótt. Hlustaði svolítið núna. Er það ekki nýlunda að Ríkisútvarpið sé með fréttir á nýársnótt? Molaskrifari hlustaði á Ævar Örn Jósepsson flytja fréttir bæði klukkan eitt og klukkan tvö (01.01.2016). Hann gerði það með ágætum. Það var alveg réttur tónn í fréttunum, sem hæfði þessari nótt.

 

ÞRIF OG FLEIRA

Starfsmaður á fjölsóttum veitingastað í Kringlunni varð uppvís að því að nota gólftusku til að þurrka af borðum.

Skrifað var á Stundin.is (29.12.2015) : ,,Við vorum orðin uppvís um þetta í gærkvöldi og erum búin að gera ráðstafanir til þess að kalla til þá aðila sem þjónusta þetta svæði fyrir okkur,“ segir Sigurjón Örn í samtali við Stundina”. Hér hefði sá sem rætt var við átt að segja, – til dæmis: ,,Við vissum af þessu í gærkvöldi … “ Starfsmaðurinn varð   uppvís að því að nota gólftusku sem borðtusku. Og svo er þetta með að þjónusta svæði!. Var ekki átt við að þrífa staðinn?

 

KAL

Úr frétt á mbl.is (29.12.2015): ,, Ann­an fé­lagi kól á tám og þurfti því að kalla til björg­un­ar­sveit sem náði í ferðalang­ana inn í Nýja­dal. …”

Hér hefði átt að standa: ,,Annan félaga kól á tám …” Einhvern kelur, e-r dofnar af kulda , verður fyrir vefjaskemmdum af frosti.

 

AÐ HALDA UPPLÝSTUM

Í Garðapóstinum (30.12.2015) er haft eftir bæjarstjóranum í Garðabæ.,,Við munum hins vegar leggja þunga áherslu á að halda íbúum, starfsfólki, heimilisfólki og aðstandendum upplýsta um gang mála ….” Molaskrifari er næsta viss um að bæjarstjóri hefur ekki orðað þetta svona. Þetta hefði átt að vera: ,, Við munum leggja þunga áherslu á að halda …… upplýstum um gang mála…”

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>