RAKNA – RÁNKA
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á gamlársdag (31.12.2015) var sagt um mann, sem dáið hafði áfengisdauða: ,, … ránkaði úr rotinu”. Molaskrifari er vanur því að sagt sé , að rakna úr rotinu, þegar einhver kemst til meðvitundar að nýju eftir slys eða áfall. En, – hann var kominn fram hjá vegamótunum , þegar hann ránkaði við sér, – þegar hann áttaði sig.
GRÆN ORKA
Í nýársávarpi sínu (01.01.2016) sagði forseti Íslands: ,,Íslendingar hafa nú þegar stuðlað að nýtingu grænnrar orku í tugum landa; …” Hér hefði forsetinn átt að segja: ,, .. í nýtingu grænnar orku ..”. eins og réttilega stendur í ávarpinu á heimasíðu embættisins, forseti.is http://www.forseti.is/Frettir/Ollfrettin/nyarsavarp/ .
MORGUNTÓNLIST
Það er góð byrjun hvers dags að hlusta á tónlistarhálftíma Jónatans Garðarssonar, Árla dags, á Rás eitt. Smekkvísi er þar næsta óbrigðul og Jóntan hafsjór af fróðleik um tónlist af ýmsu tagi. Takk fyrir það.
RÉTTLÁTT – RÉTTLÆTANLEGT
Í morgunfréttum Ríkisútvarps var sagt frá fullyrðingum Norður Kóreumanna í þá veru, að þeir hefðu sprengt vetnissprengju, en slíkt vopn væri ,,réttlát vörn ….” Molaskrifari hallast að því að þarna hafi þeim sem þýddi fréttina orðið svolítið á í messunni. Þarna hefði fremur átt að tala um að vetnissprengja væri réttlætanleg (e. justified) vörn, réttlætanlegt varnarvopn, , fremur en réttlát ( e. just) vörn. Erlendir fréttamiðlar vitnuðu í norður kóreskar sjónvarpsfréttir þar sem talað var í þessa veru: ( ,, The North said the hydrogen bomb is a legal, self-defensive right and an irrefutably justified measure”.)
EF ….
Ef Ríkisútvarpið ætlar að spara í rekstri á nýju ári liggur þá ekki beint við að hætta þátttöku í evrópsku söngvakeppninni, Evróvisjón? Það er hægt að skemmta sér ágætlega við að horfa á keppnina án þess að setja milljónir á milljónir ofan í að senda þangað fjölmennt lið. Svo mætti auðvitað leggja niður svokallaðar Hraðfréttir. Bara hugmyndir! Ekki nýjar, segja sjálfsagt sumir. Falla sennilega í grýttan jarðveg Efstaleitis.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar