«

»

Molar um málfar og miðla 1860

AÐ BRYNNA MÚSUM

Að brynna músum er að skæla eða gráta, – oft notað í gamansömum tón, segir í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson. Málkennd Molaskrifara er einnig sú, að þetta orðtak sé notað, þegar skælt er, tárast af litlu tilefni. Í fréttum Ríkissjónvarps (05.01.2016) var sagt í skjátexta, að Obama Bandaríkjafoseti hefði brynnt músum, þegar hann kynnti fréttamönnum ( og þjóð sinni) hertar reglur um notkun skotvopna. Molaskrifara hefði fundist eðlilegra að talað hefði verið um að forsetinn hefði tárast eða fellt tár, þegar hann kynnti reglurnar og minntist um leið þeirra sem skotóðir morðingjar hefðu myrt með köldu blóði. En þetta er auðvitað spurning um smekk og ekkert rangt við að tala um að brynna músum, þótt Molaskrifara hafi ekki þótt það orðalag alveg við hæfi í þessi tilviki.

 

AUGLÝSINGAR OG KYNNING

Oft er mjótt mundangshófið og meðalvegurinn vandratataður. Mjótt getur verið á munum milli kynninga  og hreinna auglýsinga í blöðum eða útvarpi. Í morgunþætti Rásar tvö (06.01.2016) var löng umfjöllun um fyrirtæki, sem skipuleggur gönguferðir á höfuðborgarsvæðinu, sem er góðra gjalda vert. En þarna var lopinn teygður um of og frekar var þetta í ætt við auglýsingu en kynningu. Ekki hefði sakað að geta þess ,að fólk getur gengið sér til heilsubótar innanhúss, í íþróttahúsinu Fífunni í Kópavogi – sér að kostnaðarlausu, þegar veður eru válynd og hálkan háskaleg. Margir, ekki síst eldri borgarar, notfæra sér þetta. Húsið er opið göngufólki fram til hádegis virka daga.. Ekki veit Molaskrifari til þess að Reykjavíkurborg eða Garðabær bjóði slíkt. Til fyrirmyndar hjá Kópavogi.

Í þessu sambandi má einnig nefna þeim til viðvörunar, sem ganga utanhúss, að á höfuðborgarsvæðinu er nú þegar dagurinn er stuttur, er slökkt á götuljósum löngu áður en fullbjart er orðið. Varla orðið nema sæmilega ratljóst, þegar slökkt er. Þetta skapar hættu fyrir alla vegfarandur, gangandi, hjólandi og akandi.

Í sumum fjölmiðlum , Fréttatímanum , til dæmis, hefur ekki alltaf verið auðvelt að greina milli ritstjórnarefnis og skrifaðra greina sem greitt er fyrir að birta. Vonandi breytist það með nýjum eigendum þar á bæ. Neytendur, lesendur, eiga rétt á að þarna séu mörkin skýr.

 

INNTAKA LEIÐBEININGA

Það er ágætt að vara við, þegar slæmt veður er í aðsigi eins og gert var í morgunþætti Rásar tvö á miðvikudag (06.01.2016). En það orkaði  tvímælis, þegar umsjónarmaður talaði um að ,, Íslendingar hefðu vafalaust tekið inn þessar leiðbeiningar”. Við tökum inn lyf, en við tileinkum okkur leiðbeiningar eða tökum tillit til leiðbeininga.

Ekki áttaði Molaskrifari sig á því hvað átt var við í sama þætti þegar talað var um einhverskonar ,,ógnarjafnvægi í ferðamálum á Íslandi ???

 

VIÐSKIPTAÞVINGANIR – VIÐTAL

Utanríkisráðherra. Gunnar Bragi Sveinsson, komst vel frá viðtali við Sigmar Guðmundsson í morgunþætti Rásar tvö á fimmtudagsmorgni (07.01.2016). Sigmar er kominn til starfa að loknu jólaleyfi og gaf ekkert eftir. Kjarni málsins er, að í þessu máli, sem öðrum verðum við að halda haus í samfélagi þjóðanna og horfa til langtímahagsmuna smáþjóðar í alþjóðlegu samstarfi. Við eigum ekki bara að standa með öðrum þjóðum í slagnum, þegar fjárhagslegur ávinningur er annarsvegar. Samstarf við aðrar þjóðir og vinveittar er smáþjóðum lífsnauðsyn. Ættum við kannski að hrópa húrra fyrir tilraunasprengingunni í Norður Kóreu, ef það land keypti af okkur loðnu og lýsi? – Nei. Svo ómerkileg eru við vonandi ekki.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>