BOLTINN Í DAGSKRÁNNI.
Á þrettándanum (06.01.2016) sýndi Ríkissjónvarpið sama boltaleikinn frá Hafnarfirði á tveimur rásum, rás 1 og HD rásinni, eða íþróttarásinni, sem stundum er svo nefnd. Þetta er auðvitað fráleitt. Það hálfa hefði verið nóg. Hversvegna mátti ekki láta dagskrána á rás 1 í friði og senda leikinn út á íþróttarásinni? Úrslit þessa leiks skiptu engum sköpum. Enn eitt dæmið um yfirgang íþróttadeildar Ríkisútvarpsins. – Svo tók við enn ein myndin um slökkviliðsmenn og bráðaliða í Chicago. Veit ekki íslenska þjóðin senn allt sem vert er að vita um löggur, slökkviliðsmenn og bráðaliða í þessari bandarísku borg?
FRÁLEIT FYLLYRÐING
Það er auðvitað fráleit fullyrðing, sem dynur á okkur í sjónvarpsauglýsingu um þessar mundir, að fyrirhugaðir tónleikar kanadíska popparans Justins Biebers séu ,,stærsti tónlistarviðburður á Íslandi fyrr og síðar”. Algjörlega út í hött. Ber vott um dómgreindarleysi þeirra sem taka gagnrýnilaust við auglýsingum, – að slíkar fullyrðingar skuli gleyptar athugasemdalaust.
FRÉTTAMAT
Fréttamat er auðvitað umdeilanlegt. Einkennilegt þótti gömlum fréttamanni,að í seinni fréttum Ríkissjónvarps (06.01.2016) skyldi ekki vera orð um fund Öryggisráðs Sþ. þar sem Norður Kóra var fordæmd. Ályktunin var einróma. Kína var með, – granni og eini bandamaður Norður Kóreu , – oftast nær. Fyrsti skóladagur bresks prins var aftur á móti fréttnæmur.
GRÁMOSINN
Gott er að hlusta á kvöldsöguna á Rás eitt. Thor Vilhjálmsson er nýbyrjaður að lesa bók sína Grámosinn glóir. Lestrarnir verða þrjátíu og einn. Konfekt. Mér hefur alltaf fundist þetta ein besta bók Thors.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar