«

»

Molar um málfar og miðla 1862

ÓKEYPIS

Molalesandi skrifaði (07.01.2016): ,,Sæll Eiður og gleðilegt ár. Hvað varð um orðið „ókeypis“? Nú er allt „frítt“. Stundum í lagi, kannski, en hræðilegt þegar það er beygt eins og t.d. hér á eftir: ,,Íslend­ing­ar sem eru á leið á EM í sum­ar eiga að mínu mati mjög góða mögu­leika á frírri gist­ingu í Frakk­landi því Frakk­ar virðast vera mjög hrifn­ir af íbúðaskipt­um. Til að mynda þá eru hátt í 5000 heim­ili í Frakklandi skráð á síðuna homeexchange.com,“ seg­ir fjöl­miðlakon­an Snæfríður Inga­dótt­ir sem sjálf hef­ur gert ótal íbúðaskipti er­lend­is og ætl­ar að deila reynslu sinni á nám­skeiði um íbúðaskipti hjá End­ur­mennt­un í byrj­un fe­brú­ar.” Molaskrifari þakkar bréfið og þarfa ábendingu. Orðið ókeypis má ekki falla í gleymsku. – og svo er það þetta með að ,,gera ótal íbúðaskipti erlendis”!

 

STYTTING

Í Morgunblaðinu (08.08.2016) er smáfréttum svokallaða flugvallarlest, sem suma dreymir um að bruna muni milli höfuðborgarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í fréttinni segir: ,, Hraðlest mundi stytta leiðina frá flugvellinum til Reykjavíkur um fimmtán til átján mínútur”.– Hefði ekki verið eðlilegra að tala um styttingu ferðatímans um fimmtán til átján mínútur? Molaskrifari hallast að því.

 

AÐ GERA FRÉTTIR

Á biðstofu las Molaskrifari í liðinni viku Frjálsa verslun 3. tbl. 2014. Þar var viðtal við nýjan fréttastjóra Ríkisútvarpsins. Haft er eftir fréttastjóranum í viðtalinu: ,,Mér finnst gaman að gera fréttir og vil ekki missa þau tengsl”.Nú veit skrifari ekki hvort rétt er eftir fréttastjóranum haft. Hann hefur aldrei heyrt talað um a gera fréttir. Hér hefði ef til vill verið eðlilegra að tala um að skrifa fréttir,vinna við fréttir eða segja að viðkomandi þætti fréttamennska skemmtilegt starf.

 

UNDARLEGA SPURT

Ekki verður annað sagt , en dálítið undarlega hafi verið spurt, þegar fréttamaður Ríkisútvarps (hádegisfréttir 08.08.2016) spurði utanríkisráðherra við hvaða upphæð ætti að miða til að aflétta viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi !

Utanríkisráðherra svaraði efnislega eins og tilefni var til: Verðmiða er  ekki hægt að setja á fullveldið.

 

LÚALEGT

Atriðið um Sigurð Einarsson í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins var lúalegt. Bar vitni um dómgreindarleysi, jafnvel illgirni.   Svo ófyndið sem mest mátti verða. Undarlegt er að sjá starfsmenn Ríkisútvarpsins þjappa sér í vörn fyrir þetta glappaskot.

Dagskrárstjóri segir afsökunarbeiðni ekki til umræðu (Fréttablaðið 09.01.2015) og segir umfjöllunina ,,vissulega hafa verið djarfa. Það þarf reyndar ekki mikla dirfsku til að sparka í liggjandi mann eins og þarna var gert, – ekki einu sinni, heldur tvisvar,  því Skaupið var endursýnt á besta tíma á föstudagskvöld (08.01.2016). Það er raunar óskiljanlegt hvers vegna þetta ,,viðtal” var upphaflega flutt.

Útvarpsstjóri ætti fyrir löngu að vera búinn að biðjast afsökunar á þessum mistökum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>