«

»

Molar um málfar og miðla 1863

UM FRÁLEITA FULLYRÐINGU

Rafn skrifaði Molum (08.01.2016): ,,Sæll Eiður.

Í molum nr. 1861 víkur þú að þeirri fráleitu fullyrðingu, að væntanlegir popptónleikar séu „stærsti tónlistarviðburður á Íslandi fyrr og síðar”. Jafnvel þótt allir væru sammála um hvernig ætti að mæla stærð tónlistarviðburða og að á þeim mælikvarða væri þessi stærstur þeirra, sem hingað til hafa farið fram, þá er það ótrúleg framsýni, að geta sagt fyrir um stærð allra óorðinna viðburða.

Í minni málvitund er ekki unnt að tala um eitthvað sem stærst, mest eða bezt fyrr eða síðar nema verið sé að tala um einstakan liðinn atburð og annar meiri hafi hvorki orðið fyrir þann tíma né á þeim tíma, sem síðan er liðinn. Ef verið er að ræða um yfirstandandi, svo ekki sé minnst á væntanlegan viðburð, þá getur hann verið sá mesti eða bezti hingað til, en þótt spádómsgáfan sé mismikil, getum við fæst sagt fyrir um það sem síðar á eftir að verða.

Þá tel ég fara betur á að tala um fyrr eða síðar í slíku samhengi, fremur en fyrr og síðar, en það má ef til vill flokka sem sérvizku.

Gleðilegt ár og þökk fyrir liðin samskipti.

PS. Ég er viss um, að hvort heldur miðað er við vinnuframlag, hljóðfæramagn eða aðrar mælanlegar stærðir, ef til vill að hávaða frátöldum, þá séu venjulegir Symfóníutónleikar „stærri“ en væntanleg poppuppákoma.” Þakka bréfið, áramótaóskir og samskiptin á liðnum árum. Allt er þetta rétt hjá Rafni að mati Molaskrifara.

 

AÐ FLYTJA ERLENDIS

Ítrekað hefur hér í Molum verið bent á ranga notkun atviksorðsins erlendis. Þetta er dvalarorð, – notað um dvöl á stað, – ekki ferð til staðar. Fólk er erlendis, fer ekki erlendis, fólk flytur ekki erlendis, þegar það flytur úr landi, flytur til útlanda. Í Spegli Ríkisútvarpsins (08.01.2016) var tvisvar , nánast á sömu mínútunni talað um Íslendinga sem flytja erlendis.

http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/spegillinn/20160108 Á tíundu mínútu (09:45). Hvað málfarsráðunautur athugi.

 

UNG FORYSTA

Forysta Sunderland var ekki nema sjö mínútna gömul, þegar … Svona var tekið til orða í ´þróttafréttum Stöðvar tvö (09.01.2016). Forysta er hvorki ung né gömul. Átt var við að Sunderland-liðið hefði haft forystu í leiknum í sjö mínútur. Íþróttafréttamönnum er þetta orðalag undarlega tamt.

 

GÓÐ MYND

Laugardagskvikmynd Ríkissjónvarpsins var sígild; The Graduate, með Dustin Hoffman og Anne Bancroft. Sígildar myndir eru þær sem eldast ekki. Það á við um þessa og raunar ótrúlega margar myndir Dustins Hoffmans. Finnst Molaskrifara. En svo er margt sinnið …..

 

STJÖRNUSPÁ

Birt var stjörnumerkjaspá á heilli opnu í sunnudagsmogga (10.01.2016). Molaskrifari gjóaði augum á það sem sagt var sporðdreka: ,,Sporðdrekar eru djúpir persónuleikar og gáfaðir”. Taldi öldungis óþarft að lesa meira !

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>