«

»

Molar um málfar og miðla 1870

AÐ KVÆNAST

Sigurður Oddgeirsson, gamall vinur og skólabróðir, skrifaði frá Danmörku:,, Af mbl.is í dag (20.01.2016)

Ensk­ur maður hef­ur leitað á náðir bresku rík­is­stjórn­ar­inn­ar eft­ir að hon­um væri tjáð að í dán­ar­vott­orði eig­in­manns hans myndi vera skráð að hann hefði aldrei kvænst.

Hér kemur fram vanþekking á móðurmálinu.

Hvernig í ósköpunum eiga hommar að geta kvænst.

Orðið að kvænast þýðir að leita sér kvonfangs eða með öðrum orðum að leita sér að eiginkonu.

Væri í setningunni sýnir vankunnáttu í notkun viðtengingarháttar. Þarna á að vera var tjáð.

Eða hvað?” Auðvitað. Réttar ábendingar. Væri – var reyndar leiðrétt síða á mbl.is. Þakka bréfið, Sigurður.

 

SMARTLAND BREGST EKKI

Af Smartlandi Mörtu Maríu á mbl.is (1901.2016):,, Helsta skýr­ing­in á leynd sam­bands­ins var vegna þess að Ólafi föður Har­ald­ur leist ekki á ráðahag­inn og fannst Sonja ekki sam­boðin syni sín­um. “. Föður Haraldar leist ekki á ráðahaginn. Skýringin á leynd sambandsins var … , – skýringin var ekki vegna þess að … skýringin var sú, að …

 

ÞJÓÐ Í SÁRUM

,,Íslenska þjóðin er í sárum”, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsinsí níu fréttum að morgni miðvikudags (20.01.2016). Hann átti við að margir væru ósáttir eftir tap í boltaleik gegn Króötum kvöldið áður. Þetta er kannski ágætt dæmi um það hvernig tekist hefur með allgóðum árangri að boltaæra talsverðan hluta þjóðarinnar. Sú spurning vaknar hinsvegar hvað fréttamaðurinn hefði sagt, ef alvarlegir atburðir hefðu gerst. Verðbólga orðanna er vond eins og önnur verðbólga.

 

Í HEIMSÓKNARSKYNI

Úr frétt í Morgunblaðinu (20.01.2016):,, En ef ég byggi upp nýtt líf hér,, aðlagast samfélaginu og börnin hafa næg tækifæri, sé ég ekki ástæðu til þess að flytja aftur heim til Sýrlands að loknu stríðinu, nema í heimsóknarskyni”. Að flytja heim í heimsóknarskyni! – Ögn skárra hefði til dæmis verið: … fara aftur heim til Sýrlands, nema þá í heimsókn.

 

VINSAMLEG TILMÆLI

Það eru vinsamleg tilmæli til Ríkisútvarpsins, að látið verði af þeim leiða sið að garga á okkur í svokölluðum leiknum auglýsingum, sem jafnan eru fluttar rétt á undan aðalfréttatímum Ríkisútvarpsins. Hljóðstyrkur í útsendingu er greinilega aukinn, þegar kemur að garginu. Maður hrekkur í kút. Á sér einskis ills von. Ljótur siður og leiður. En hér sennilega til of mikils mælst.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>