«

»

Molar um málfar og miðla 1882

OG HÉRNA – HÉDDNA

Í mánaðarlegu MR´59 kaffi skólasystkina í liðinni viku nefndi ágæt skólasystir, sem er umhugað um móðurmálið, að Molaskrifari ætti að nefna sívaxandi og bráðsmitandi notkun hikorðsins hérna, og hérna, (frb. héddna). Skrifari tók því vel, enda nefnt þetta nokkrum sinnum í þessum pistlum. Daginn eftir (04.02.2016) var svo ljómandi góð grein í Morgunblaðinu , bls. 19, um þetta efni eftir Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fv. ráðherra. Hjörleifur fjallar um æðibunugang í framsögn, hraðan talanda , – og svo hikorð eins og og hérna. Hjörleifur segir: ,, Lengi vel skreytti ,,sko” í tíma og ótíma mál manna, en nú hefur það vikið fyrir innskotinu ,, og hérna “ sem, margur hreytir út úr sér í annarri hverri setningu – og hérna – …og hérna … og hérna. Þessi kækur virðist vera bráðsmitandi svo mjög hefur hann sótt í sig veðrið upp á síðkastið og virðast lærðir jafnvel næmari fyrir smiti en alþýða manna. Þetta stagl truflar fólk eflaust misjafnlega mikið, en ýmsir sem ég hef rætt við telja það óheillaþróun”.

Molaskrifari tekur undir með Hjörleifi. Þetta er óheillaþróun og fyrirbærið er ótrúlega smitandi. Öðru hikorði, – beint úr ensku mætti bæta við. Það er orðið ,,skilurðu”, sem sumir eiga til að skjóta inn í setningar í tíma og ótíma að tilefnislausu.- Ekki væri úr vegi að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins færi yfir þessi mál með fréttamönnum og þáttastjórnendum. Það væri góð byrjun.

 

ÓSKILJANLEGT

Reyndur maður í fréttaskrifum sendi Molaskrifara eftirfarandi:

,,Eftirfarandi frétt frá í gær, föstudag(05.02.2016), er á vef RÚV og er athyglisverð, fyrir að vera óskiljanleg. Hvar er Reykjanes, Látrar, Hrafnbjörg, Ögur? Er þetta Reykjanes hér „suður með sjó“ – eru Látrarnir í Djúpi eða vestur við Látrabjarg og eru nefnd Hrafnabjörg austur á landi, þar sem er heimavöllur forsætisráðherrans. Til viðbótar þá eru orð í fréttinni sem almenningur þekkir tæpast til. Kjarni þessa rúmast tveggja línu frétt: „Rafmagnslaust er á nokkrum bæjum í Ísafjarðardjúpi og á Rauðasandi. Unnið er að viðgerð.“

Hér er fréttin óskiljanlega:

,, Rafmagn var komið á að Látrum í kvöld með dísilvél í Reykjanesi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Orkubús Vestfjarða. Unnið er að því að taka út teinrofa á Hrafnabjörgum og verður reynt að setja rafmagn á þangað frá Látrum.

Spennusetning þaðan að Ögri var reynd rétt fyrir klukkan tíu í kvöld án árangurs. Unnið er að viðgerð á vírsliti við Skarð í Skötufirði, segir í tilkynningunni. Þegar því er lokið verður hafin leit að fleiri bilunum. Enn er rafmagnslaust á Rauðasandi en aðrir notendur á suðursvæði ættu að vera með rafmagn.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

AÐ SIGRA KEPPNINA

Í upphafi svokallaðra Hraðfrétta Ríkissjónvarps (06.02.2016) á laugardagskvöld ( sem allar voru um Evróvisjón) var sagt við okkur: ,, Svíar hafa sigrað keppnina oftast allra”. Það sigrar enginn keppni. Þeir sem eru sæmilega að sér um móðurmálið vita þetta.- En var það sem skrifara sýndist: Sendi hið síblanka Ríkissjónvarp tvo menn til Svíþjóðar í erindum Hraðfrétta? Molaskrifari hlýtur að hafa misskilið þetta. En hafi svo verið, er ekkert sem réttlætir slíkan fjáraustur.

AÐ KJÓSA – AÐ GREIÐA ATKVÆÐI

Endalaust er því ruglað saman að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum. Í átta fréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudagsmorgni (04.02.2016) var talað um að kjósa um samning á Bandaríkjaþingi. Átt var við atkvæðagreiðslu um samning. Ekki kosningar um samning. Það er út í hött.

DELLUFYRIRSÖGN

Hér er dellufyrirsögn á dellufrétt á visir.is (04.02.2016): Fagnaði upp á starfslok með glæstum dansi. http://www.visir.is/fagnadi-upp-a-starfslok-med-glaestum-dansi/article/2016160209416

Þetta mun hafa verið lagfært síðar. Einhver fullorðinn komist í málið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>