FÓR MIKLUM
Glöggur Molalesandi benti á eftirfarandi á mbl.is (13.02.2016):
,,Benedikt Valsson fór miklum í græna herberginu í söngvakeppni Sjónvarpsins í kvöld.” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Enn eitt dæmið um það þegar fákunnandi fréttaskrifarar fara rangt með orðtök. Þarna hef enginn lesið yfir. Rétt hefði verið: Benedikt Valsson fór mikinn …. Að fara mikinn, merkir venjulega að láta mikið fyrir sér fara, vera stórorður.
Sjá: http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/02/13/nylon_og_sinfo_eftir_20_ar/
ALLT FER FRAM
Þórhallur Birgir Jósepsson skrifaði (10.02.20169: ,,Sæll Eiður!
Einhæfni í orðavali getur verið hvimleið í fjölmiðlum, ekki síst þegar sífellt er klifað á sömu orðum eða orðasamböndum. En, einhæfnin getur gengið lengra og orðið að ríkjandi málnotkun sem að auki er röng, að best verður séð.
Dæmi: Eitthvað “ … fer fram.“ Algengt er að taka þannig til orða um einhverja skipulagða viðburði, leiksýningin fór fram, hátíðahöldin fóru vel fram o.s.frv. Allt er gott í hófi, þetta líka.
Svo ganga menn lengra, af hverju veit ég ekki, kannski nennir fólkið ekki að hugsa og rifja upp fleiri blæbrigði málsins eða önnur orðatiltæki. Það er ósköp leiðinlegt t.d. að hlusta á íþróttafréttir þar sem talað er um hvern viðburðinn eftir annan og allir fara þeir fram. Enn versnar það þegar heilu dagarnir og kvöldin fara fram. Nú gengur á með dagskrárkynningum í Sjónvarpinu þar sem sagt er frá því að fyrra undanúrslitakvöld í lagavali fyrir Evrópsku söngvakeppnina hafi “ …farið fram …“ og síðara undanúrslitakvöldið “ … fari fram …“ einhvern tiltekinn dag. Kvöld fari fram???
Þetta er engu skárra en þegar talað er um verðlaunaveitingar eins og Edduverðlaunin svo dæmi sé tekið, í kynningum og jafnvel fréttum var sagt frá því að Edduverðlaunin „…fari fram…“ þennan eða hinn daginn og bráðum fáum við trúlega að heyra að Óskarsverðlaunin „fari fram“ vestur þar í „Ellei“. Ég vona ekki sé farið fram á of mikið að blessað fjölmiðlafólkið reyni nú að sýna einhverja viðleitni til að hafa sæmilega hugsun að baki orðavali sínu, svo ekki sé minnst á margnefndan málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins, sem virðist ekki telja sig hafa neinar skyldur í þessum efnum.” Þakka bréfið Þórhallur. Þú hefur mikið til þíns máls. Allt fer fram, sumt brestur á, eins og vikið var að hér í síðustu viku. Málfarsráðunautur er reyndar með vikulegan pistil í morgunþætti Rásar tvö á hverjum þriðjudagsmorgni, Málskotið. Slíkur pistill ætti helst á vera á hverjum degi. Til skiptis til dæmis í morgunþáttum Rásar eitt og Rásar tvö. En kannski á málfarsráðunautur við ofurefli að etja innanhússí Efstaleiti. Þar snýst allt um popp og sport.
GÖGN
Í fréttum Stöðvar tvö (14.02.2016) var sagt um afsögn rektors í Svíþjóð vegna barkaígræðslumálsins: ,, … mönnum sé ekki kunnugt hvaða gögn Hamsten vísar til”. Hér hefði átt að standa, reglum málsins samkvæmt: Mönnum sé ekki kunnugt til hvaða gagna Hamsten er að vísa. Þeir sem skrifa fréttir þurfa að kunna undirstöðuatriðin í íslenskri málfræði.
FLEIRI EN HVAÐ?
Fimm dálka fyrirsögn yfir þvera forsíðu Fréttablaðsins á miðvikudag (10.02.2016): Fleiri börn hælisleitenda ekki í skóla. Ekki er sagt fleiri en hvað. Átt er við að mörg börn hælisleitenda séu ekki í skóla, fjöldi barna hælisleitenda sé ekki í skóla. Algengt. Því miður.
AÐ SETJA NIÐUR
Úr dv.is, haft eftir ,aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem sagður er grunnskólakennari: ,, Björn Þorláksson setur beinlínis niður sem fagmann þegar hann tönnlast sérstaklega á orðinu „krakki“ Gauta til niðrunar.’’ Setur niður sem fagmann!.- Ætti mati Molaskrifara að vera; setur niður sem fagmaður. Gerir lítið úr sér. Vonandi er þetta tungutak grunnskólakennurum almennt ekki tamt.
ÚTDEILING RÉTTLÆTIS
Úr frétt á mbl.is (11.02.2016):,, Þá benti hann á að ásakanirnar hefðu verið lagðar fram í Svíþjóð, ríki sem hefði gott orðspor hvað varðar útdeilingu réttlætis.” Ekki kann Molaskrifari að meta orðalagið útdeilingu réttlætis. Hefði ekki mátt tala um gott orðspor í mannréttindamálum eða dómsmálum? Eða að gott orð færi af réttarfarinu í Svíþjóð? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/02/10/cameron_vill_assange_ur_sendiradinu/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar