«

»

Molar um málfar og miðla 1896

BARNAMÁL

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (24.02.2016) sagði fréttamaður: ,, .. og því verður leikurinn pínu sérstakur fyrir hana.”. Ekki tala við okkur á barnamáli í fréttum. Ekki heldur í íþróttafréttum.

 

MEINLOKA

Af mbl.is um bíl sem náðist upp úr inntakslóni á hálendinu (24.02.2016): ,,Lands­virkj­un lagði áherslu á að ná bíln­um upp sem fyrst til að forða um­hverf­isóhappi, svo sem olíuleka, og til að koma í veg fyr­ir að bíll­inn bær­ist ekki inn í inntaks­mann­virki Búðar­háls­stöðvar.” Hér er ekki auðvitað ofaukið. Ekki óalgeng meinloka. Sjá mátti á fésbók að fleiri höfðu hnotið um þetta. Svo er skrifari ekki fullsáttur við að nota sögnina að forða í þessu samhengi. En það er víst smekksatriði. Sá á fésbók, að fleiri höfðu hnotið um þetta.http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/23/nadu_bilnum_upp_ur_loninu/

 

FYRIR RANNSÓKN MÁLSINS

Úr lögreglufrétt á dv.is (24.02.2106): ,,Maðurinn var svo vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins”. Meinloka að mati Molaskrifara. Maður les þetta aftur og aftur í lögreglufréttum. Kannski tekið orðrétt úr gögnum lögreglunnar. Ekki betra fyrir það. Maðurinn var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Oft verið nefnt í Molum. http://www.dv.is/frettir/2016/2/24/framdi-innbrot-hja-fyrrverandi-unnustu/

 

MEIRA UM BLÓTSYRÐI

Í Molum gærdagsins var minnst á umræður um blótsyrði í útvarpi og sjónvarpi í Málskoti á þriðjudag í þessari viku. Það rifjaði upp fyrir skrifara, að í æsku var honum stranglega bannað að blóta , en braut það bann í einrúmi og tvinnaði þá saman blótsyrði í hljóði eftir bestu getu!

Aldrei heyrði hann sterkar tekið til orða á æskuheimili sínu, en ansans, og ef verra var, þá ansans ári , rækallinn, rækallans og hver ansinn, j,a hver ansinn. Þetta var raunar oft sagt í fremur jákvæðri merkingu.

Í enskunáminu í MR var ekki mikið gert af því að kenna okkur blótsyrði, en þegar skrifari kom til náms í háskóla vestur í Bandaríkjunum og gekk þar í skólabræðrafélag (e. fraternity, Greek society) voru skólabræðurnir fljótir að taka Íslendinginn í læri í þessum efnum.  Sum blótsyrðin voru reyndar svo gróf, að þau íslensku hljómuðu í samanburði eins og barnahjal. Ein regla var þó í hávegum höfð. Aldrei mátti láta sér blótsyrði um munn fara í návist kvenna. Skrifara varð það einhvern tíma á að segja damn , svona í merkingunni hver árinn, hver fjárinn, þar sem stúlkur voru viðstaddar og fékk skömm í hattinn á eftir, frá skólabræðrunum. – Þú bölvar ekki í návist kvenna ( e. – you don´t swear when ladies are present!) Svona voru nú siðareglurnar fyrir meir en hálfri öld þar vestra. Þetta svona rifjaðist við umræður í Málskoti sl. þriðjudag um óvenjulega sóðalegt orðbragð í beinni útsendingu Ríkissjónvarps á laugardagskvöld.

 

ENN EINU SINNI

Á fimmtudagskvöld (25.02.2016) voru  auglýstir  tónleikar í Hörpu þar sem fjöldi listamanna mundi stíga á stokk og flytja tónlist. Þetta var rangt. Auglýsendur kunna þetta ekki. Auglýsingadeildirnar  kunna þetta ekki. Menn stíga  á stokk til að strengja heit. En listamenn stíga á svið, koma fram og  flytja okkur list sína.- Þetta er ekkert  mjög flókið.

 

ÖRYGGI AUKIÐ MEÐ MERKINGUM

Glöggur lesandi benti skrifara á eftirfarandi: ,,Á annarri síðu Morgunblaðsins í dag, föstudaginn 26. febrúar, er frétt með fyrirsögninni “Öryggi í Reynisfjöru aukið með merkingum”. Þarna gætir hugsunarfeils hjá fyrirsagnasmiðnum. Merkingarnar auka ekki öryggi, þær vara við hættum.”  Molaskrifari þakkar bréfið. Auðvitað er rétt að merkingar vara við hættum, en þær  stuðla jafnframt að auknu öryggi.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>